Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um fjárlagafrumvarp 2025

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélags Íslands, Sjúkraliðafélags Íslands og Ljósmæðrafélag Íslands um fjárlagafrumvarp 2025.

Í fyrsta sinn senda stærstu heilbrigðisstéttir landsins sameiginlega umsögn um fjárlagafrumvarp stjórnvalda.

Þessar lykilstéttir heilbrigðiskerfisins vilja í upphafi þessarar umsagnar, taka undir þau orð sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu þar sem stendur: „Fjárlög eru ekki aðeins tölur á blaði. Bak við þær er rekstur heils samfélags.“

Þetta á ekki síst við þá fjármuni sem renna til heilbrigðiskerfisins. Það er ekki hægt að aðskilja samfélagið frá heilbrigðiskerfinu. Um er að ræða grunninnviði íslensks samfélags. Hins vegar stendur heilbrigðiskerfið nú á tímamótum. Skjólstæðingum þess mun fjölga verulega á næstu árum og glíma við mun stærri og flóknari vanda en áður. Þetta er staðreynd sem legið hefur fyrir lengi og verið margítrekuð án þess að farið hafi verið í samstillt átak til að mæta fyrirséðum komandi vanda. Það má líkja þessu við að allir hefðu vitað árið 2005 um væntanlegan Covid-faraldur og áhrif hans á samfélagið, án þess að bregðast við af fullum þunga.

Fjárlagafrumvarp 2025 staðfestir talsvert betri afkomu ríkissjóðs en búist var við. Tekjur ríkisins hafa undanfarin ár verið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, ekki síst þar sem hagvöxtur og neysla innanlands hefur verið mikil ásamt talsverðri fólksfjölgun. Nýjasta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sýnir einnig að skuldastaða ríkisins er betri en búist var við og staðan er sögð „sterk“.

Því verður að teljast að svigrúm sé fyrir hendi að bæta í heilbrigðismálin. Þrátt fyrir það munu heilbrigðismálin fá sama hlutfall af útgjöldum ríkisins í þessu fjárlagafrumvarpi og þau fengu í síðasta og þarsíðasta fjárlagafrumvarpi eða 31%. Með síendurteknum loforðum um innspýtingar í heilbrigðismálin og með hækkandi aldri þjóðarinnar ætti þetta hlutfall að hækka jafnt og þétt.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur ítrekað bent alþingismönnum á þann vanda sem heilbrigðiskerfið glímir við. Ítrekað berast fréttir af "neyðarástandi" innan heilbrigðiskerfisins en fjárlaganefnd hlýtur að vilja bregðast við því í meðförum sínum á fjárlagafrumvarpinu.

Mönnunarvandi er fjármagnsvandi

Stjórnvöldum er tíðrætt um að mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu og er hægt að taka undir þær áhyggjur. Neðangreindar heilbrigðisstéttir minna á að skýringa á því, má m.a. rekja til þeirra kjara sem stéttunum er búið að, ásamt vinnuálagi og vinnuaðstæðum. Mönnunarvandinn er því jafnframt fjármagnsvandi.

Í dag getur Ísland ekki fullmannað öll laus störf innan heilbrigðisþjónustunnar, langt því frá. Það var enginn sem tók ákvörðun um það þar sem það gerðist vegna þess að enginn greip inn í. Við sjáum í dag merki þess að þjónustustig heilbrigðisþjónustunnar hefur lækkað vegna þess að það eru einfaldlega ekki nógu margt heilbrigðisstarfsfólk til að vinna þau störf sem þarf að gera.

Nú er því tækifæri fyrir stjórnvöld til að grípa inn í áður en þessi óheillaþróun heldur áfram. Þingmenn vita að óbreytt staða í heilbrigðiskerfinu mun kosta hið opinbera meira á morgun heldur aðgerðir dagsins í dag.

Neðangreindar heilbrigðisstéttir minna fjárlaganefnd á, að nefndin hefur fullan stuðning þjóðarinnar þegar kemur að bæta fjármagni í heilbrigðiskerfið enda má sjá í könnunum aðheilbrigðismálin eru iðulega efst af þeim málefnum sem almenningur vill að stjórnvöld eða stjórnmálaflokkar leggi áherslu á.

Er raunhækkun eða raunlækkun?

Í fjárlagafrumvarpinu hækka útgjöld til heilbrigðismála sem nemur um 2,7% að raunvirði.

1. Sé þessi hækkun brotin niður á einstaka málefnaflokka sést að fjármagn til „sjúkrahúsþjónustu“ (fyrst og fremst LSH, SAk og almenn sjúkrahúsþjónusta út á landi) eykst um 3,6% á næsta ári að raunvirði.

2. Fjármagn til „heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa“ (fyrst og fremst heilsugæslan og sérfræðiþjónusta) eykst um 2,6% að raunvirði.

3. Málaflokkurinn „ hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta” fær um 1,6% raunhækkun milli ára.

4. „Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála" fær um 2,6% raunlækkun á milli ára.

Það er hins vegar mikilvægt að setja þessar tölur í samhengi við fjölgun landsmanna annars vegar og fjölgun eldri borgara hins vegar. Að jafnaði fjölgar eldri borgurum um 3% á milli ára en það er hópur sem nýtir hlutfallslega mest heilbrigðiskerfið. Fjölgun landsmanna hefur verið að á bilinu 2,5-3% undanfarin ár. Með þetta í huga sést að sú aukning sem má finna í fjárlagafrumvarpinu nær varla og stundum alls ekki að halda í við þá fjölgun sem verður á landsmönnum. Þessar litlu raunhækkanir eru því í litlu samræmi við fyrirheit stjórnvalda um aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustu fyrir alla.

Fjárlaganefnd Alþingis er því hvött til að bæta fjármagni til heilbrigðismála. Ístjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru heilbrigðismálin sérstaklega talin vera mikilvæg og í forgangi. Í þessu ljósi þyrfti án efa að tryggja enn frekar fjármagn til þessa mikilvæga málefnasviðs.

Hugmynd fyrir fjárlaganefnd

Ein hugmynd sem neðangreindar heilbrigðisstéttir vilja hvetja fjárlaganefnd til að framkvæma að sinni er að eyrnamerkja nú fjármuni á málefnasviðin „sjúkrahúsþjónusta" og „heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa" sem síðar rynnu í stofnanasamninga við heilbrigðisstéttir.

Stofnanasamningar skipta sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður miklu máli, enda liggur launamyndum þeirra að hluta til í stofnanasamningum ólíkt hjá læknum. Viðmótstofnana er iðulega það sama, ekki eru til peningar svo hægt sé að fylgja í raun eftir þeirri skyldu sem þeim ber skv. miðlægum samningum. Ef fjárlaganefnd er alvara að tryggja betri mönnun á heilbrigðisstofnunum þá væri þetta raunhæf leið sem alþingismenn gætu farið. Fjármunirnir gætu verið ákveðið hlutfall af núverandi rekstrarfé viðkomandi heilbrigðisstofnana, sjúkrahúsa og heilsugæslunnar.

Gagnrýnisverð lækkun

Þá eru fyrirhugaðar lækkanir í fjárlagafrumvarpinu á fjárheimildum til endurhæfingarþjónustu um 220 m.kr. vegna niðurfellingu á framlögum til SÁÁ, Samhjálpar, Reykjalundar, Parkinsonssamtakanna og Ljóssins mótmælt harðlega. Þessi samtök og stofnanir skipta heilbrigðiskerfið í heild sinni miklu máli enda sparar þeirra starfsemi kostnað annars staðar í kerfinu. Því er lagt til að fjárlaganefnd dragi þessar lækkanir til baka.

Greining á mönnun

Í frumvarpinu er boðuð áframhaldandi greining á mönnun heilbrigðiskerfisins og hugað að breytingum tengt verkaskiptingu heilbrigðisstarfsmanna. Þá skal unnið að mannauðsstefnu í heilbrigðisþjónustu eins og segir í fjárlagafrumvarpinu. Rétt er að hafa í huga að við höfum oft áður séð þetta markmið. Þetta skiptir allar heilbrigðisstéttir miklu máli og tímabært að sjá afgerandi skref í þessum efnum sem eru þá í takt við núgildandi heilbrigðisstefnu yfirvalda til ársins 2030.

Heilbrigðiskerfið er sá málaflokkur sem flestir landsmenn telja vera þann mikilvægasta. Því er brýnt að það sjáist þegar kemur að fjárveitingum úr okkar sameiginlegum sjóðum.

Neðangreindar heilbrigðisstéttir óska eftir að koma á fund fjárlaganefndar til að fylgja eftir þessari umsögn.

Virðingarfyllst,

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður

Steinunn Þórðardóttir, formaður

Sandra B. Franks, formaður

Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður