Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir stuðningi við frumvarpið um breytingu á lögum um tóbaksvarnir og telur sérstaklega mikilvægt að koma í veg fyrir að börn og unglingar byrji að nota vörur sem innihalda nikótín sem í framhaldinu geta haft skaðleg áhrif á heilsu notandans.
Fíh vísar í fyrri umsögn félagsins um sama efni dagsetta 8. júlí 2022 þar sem meðal annars fram kom að heilsuvernd og forvarnir ættu að hafa sérstakan forgang, einkum til að draga úr algengi reykinga og tóbaksnotkunar á meðal ungmenna. Þetta telst til fyrsta stigs forvarna, sem ættu að vera forgangsatriði varðandi löggjöf um vörur sem innihalda nikótín. Þar eru hjúkrunarfræðingar í lykilhlutverki þar sem þeir sinna forvörnum sem fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu m.a. á heilsugæslustöðvum og í skólahjúkrun. Er þetta í samræmi við þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um heilsu, vellíðan og auknar forvarnir, sem jafnframt er í stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til 2030. Jafnframt styður heilbrigðisstefna heilbrigðisráðuneytisins til 2030 þetta líka en þar er einnig fjallað mikilvægi 1. stigs heilbrigðisþjónustu sem eru forvarnir. Fíh leggur ríka áherslu á að mjög mikilvægt er að missa ekki niður þann einstaka árangur sem náðst hefur í tóbaksvörnum hér á landi.