Umsögn: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi (meðalhófsprófun, EES reglur)
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) ítrekar fyrri umsögn að staðfesta má starfsleyfi hjúkrunarfræðinga frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi hjúkrunarfræðings sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001.
Fíh vill aukinn skýrleika og afstöðu þar til bærra stjórnvalda á sviði heilbrigðismála, að þau lýsi sinni sýn og afstöðu hvernig þau sjá fyrir sér framkvæmd meðalhófsprófunar og efni reglugerðar gagnvart heilbrigðisstéttum og þá einkum hjúkrunarfræðinga.
Jafnframt bendir Fíh á 2 gr laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi sem hér er til umsagnar, að þeir ,,einstaklingar sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skulu búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi“. Fíh ítrekar áskorun sína til stjórnvalda að krefjast íslenskukunnáttu hjá hjúkrunarfræðingum af erlendu þjóðerni til að þeir geti öðlast starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingar á Íslandi. Á síðustu þremur árum hefur fjöldi starfandi hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni fjölgað úr 6% í 11%. Árið 2024 voru tæplega þriðjungur hjúkrunarleyfa hjá embætti landlæknis veitt hjúkrunarfræðingum af erlendu þjóðerni. Gera þarf kröfu við starfsleyfi hjúkrunarfræðinga um kunnáttu í íslensku og þekkingu á viðeigandi lögum og reglum sem eru nauðsynleg til að geta starfað sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi. Tryggja þarf þeim fullnægjandi stuðning varðandi starfs- og menningarbundna þætti, sanngjörn laun og öruggt starfsumhverfi. Á þessum þáttum hefur verið brotið gagnvart hjúkrunarfræðingum af erlendu þjóðerni og er það óásættanlegt.