Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagna því að fram er komin tillaga til þingályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum.

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum, 241. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagna því að fram er komin tillaga til þingályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum. Fastlega má áætla að samúðaþreyta sé til staðar meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga, eins og víða erlendis, þó ekki séu komnar stórar rannsóknir þess eðlis hér á landi. Hins vegar hefur kulnun, sem er skilgreint af afbrigði af samúðarþreytu, verið rannsökuð hér á landi meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga. Rannsóknir sýna fram á kulnunareinkenni eru að færast í aukana hjá hjúkrunarfræðingum og sérstaklega á tímum heimsfaraldurs, þar sem hjúkrunarfræðingar hafa gegnt lykilhlutverki. Auk gríðarlegs álags tengdu faraldrinum þarf áfram að sinna þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og er þetta mikla álag farið að skila sér í uppsögnum hjúkrunarfræðinga, langvarandi veikindum og kulnun í starfi. Um 25% aukning er á umsóknum hjúkrunarfræðinga í Styrktarsjóð Fíh milli 2020 og 2021 og hefur aldrei verið svo mikil. Skv. upplýsingum frá VIRK hefur fjöldi hjúkrunarfræðinga í þjónustu hjá þeim aldrei verið eins hár og nú. Fíh telur það vera mikið áhyggjuefni, enda hafi kulnun ekki bara neikvæð áhrif á líðan fólks heldur geti hún líka grafið undan öryggi sjúklinga og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.

Til að koma í veg fyrir frekara brottfall hjúkrunarfræðinga úr starfi og tryggja mönnun og öruggt starfsumhverfi, þarf að bregðast strax við. Öðruvísi verða gæði og öryggi þjónustunnar ekki tryggð. Því er þessi þingsályktunartillaga sem jafnframt felur í sér tillögur að úrrræðum, mjög nauðsynleg til að draga úr samúðarþreytu og kulnun. Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum að koma að frekari vinnu við verkefnið.