Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um nikótínvörur

Fíh telur að sömu lög og reglur sem gilda um annað tóbak eigi að gilda um neyslu, sölu, markaðssetningu og aðgengi allra vara sem innihalda nikótín, þar á meðal nikótínpúða.

Efni: Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna máls nr.12/2022: Nikótínvörur

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Fagdeild lungnahjúkrunarfræðinga innan Fíh fagna því að fram er komin tillaga að breytingum á lögum er taka til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum, þar á meðal nikótínpúðum. Rannsóknir sýna að neysla á nikótínpúðum hefur aukist meðal ungmenna, sem Fíh og Fagdeild lungna- hjúkrunarfræðinga telja vera ákveðið áhyggjuefni.

Fíh telur að sömu lög og reglur sem gilda um annað tóbak eigi að gilda um neyslu, sölu, markaðssetningu og aðgengi allra vara sem innihalda nikótín, þar á meðal nikótínpúða. Með því móti er hægt að hafa heildstæðar og skýrar reglur varðandi vörur sem innihalda nikótín og lögð áhersla á forvarnir og eftirlit með sölu, markaðssetningu og aðgengi, sem og hvar megi og megi ekki nota þær.

Fíh telur sérstaklega mikilvægt að koma í veg fyrir að börn og unglingar byrji að nota vörur sem innihalda nikótín - þar með taldir nikótínpúðar - sem í framhaldinu geta haft skaðleg áhrif á heilsu notandans. Slíkt telst til fyrsta stigs forvarna, sem ættu að vera forgangsatriði varðandi löggjöf um vörur eins og nikótínpúða, sem innihalda nikótín. Mikilvægt er að missa ekki niður þann einstaka árangur sem náðst hefur í tóbaksvörnum hér á landi.