Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) tekur til umsagnar drög að breytingum á leikskólakerfi Reykjavíkurborgar. Fíh styður markmið um að bæta starfsumhverfi leikskóla og efla gæði leikskólastarfs.

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) um umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) tekur til umsagnar drög að breytingum á leikskólakerfi Reykjavíkurborgar. Fíh styður markmið um að bæta starfsumhverfi leikskóla og efla gæði leikskólastarfs. Leikskólar eru hornsteinn í íslensku samfélagi, þeir eru mikilvæg menntastofnun fyrir börn, lykilþáttur í jafnrétti kynjanna og forsenda þess að foreldrar, ekki síst konur, geti tekið fullan þátt á vinnumarkaði.

Fíh leggur áherslu á að umbætur í leikskólakerfinu verði byggðar á faglegum forsendum og að megináherslan verði lögð á að bæta starfsaðstæður starfsfólks og fjölga stöðugildum svo hægt sé að tryggja börnum góða umönnun, nám og leik í öruggu og faglegu umhverfi.
Það er ljóst að mönnunarskortur, mikið álag og ótryggt starfsumhverfi hafa neikvæð áhrif á bæði starfsfólk og börn. Til að bæta ástandið þarf fyrst og fremst að fjármagna leikskólastigið betur, ekki að draga úr þjónustu við börn og fjölskyldur.

Ekki má velta vanda leikskólanna yfir á foreldra, sérstaklega ekki konur í vaktavinnu

Tillögur um styttingu dvalartíma og hækkun leikskólagjalda eru að mati Fíh ekki raunhæf lausn á vanda leikskólanna. Slíkar breytingar munu hafa mest áhrif á foreldra í störfum þar sem vaktavinna er óhjákvæmileg, svo sem í heilbrigðisþjónustu, umönnunarstörfum og öðrum framlínustörfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru um 95% konur á Íslandi. Konur bera því miður enn sem komið er meginábyrgð á fjölskyldulífi og umönnun barna. Slíkar aðgerðir, sem hér eru lagðar fram, grafa undan jafnrétti kynjanna og geta dregið úr atvinnuþátttöku kvenna, sem væri skref aftur á bak fyrir íslenskt samfélag.
Að auki er skortur á hjúkrunarfræðingum á Íslandi og gætu þessar breytingar dregið enn frekar úr atvinnuþátttöku hjúkrunarfræðinga, með slæmum afleiðingum fyrir þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Fíh bendir enn fremur á að samkvæmt 30. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. sömu laga ber að gera kynja- og jafnréttismat við mótun stefnu og áætlanagerðar á leikskólastigi. Slíkt mat er ekki sýnilegt í framlögðum gögnum og óskar Fíh eftir að það verði birt og kynnt sem hluti af samráði áður en ákvörðun er tekin.

Fíh styður aðgerðir sem miða að því að bæta leikskólastarf og tryggja fagleg vinnubrögð á leikskólum, en leggst gegn því að breytingar á leikskólakerfinu komi niður á fjölskyldum, sérstaklega konum í vaktavinnu og foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika á vinnumarkaði.
Lausnin á vanda leikskólanna er ekki að stytta dvalartíma barna eða hækka leikskólagjöld, heldur að tryggja nægjanlega mönnun, sanngjörn laun og góðar starfsaðstæður fyrir starfsfólk leikskóla.