Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um umboðsmann sjúklinga

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um þingsályktunartillögu um umboðsmann sjúklinga, 116. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn þingsályktunartillögu um umboðsmann sjúklinga og fagnar framkominni tillögu til þingályktunar og tekur undir þá greinargerð sem henni fylgir.

Fíh vísar í fyrri umsögn dagsetta 04. nóvember 2022.

Fram kemur í lögum um réttindi sjúklinga að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á að veita á hverjum tíma. Hins vegar geta komið upp deilumál eða önnur ágreiningsatriði innan heilbrigðiskerfisins þar sem sjúklingar geta verið í viðkvæmri stöðu. Því er rík þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem gætir hagsmuna þeirra eins og fram kemur í greinargerð þingályktunartillögunnar. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að gæta skal að rétti þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu óháð ástæðum og geta því jafnvel ekki leitað réttar síns eða varið hann. Eins og fram kemur í siðareglum hjúkrunarfræðinga að þeir eru málsvari skjólstæðinga sinna og standa vörð um reisn þeirra og sjálfsákvörðunarrétt, sem og réttinn til bestu mögulegrar þjónustu á hverjum tíma. Jafnframt er það hlutverk hjúkrunarfræðinga að tryggja að hagsmunir og réttindi sjúklinga séu lögð til grundvallar í hjúkrun, eins og fram kemur í stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum. .

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur því að með tilkomu embættis umboðsmanns sjúklinga er hægt að tryggja enn betur hagmuni og réttindi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.