Ég byrja þennan mánudagsmorgun líkt og flesta aðra morgna á því að rölta í vinnuna. Þvílík forréttindi sem það eru að búa í göngufæri frá vinnustaðnum. Ég fer á B1 og hitti samstarfskonur mínar þar á göngudeild smitsjúkdóma. Þangað fer ég fyrst og fremst til að hitta skemmtilegar konur en sæki í leiðinni vinnutölvuna og bíllykla. Ég fer aðeins yfir málin með þeim og fæ ráðleggingar.
Næsta stopp er Ylja neyslurými þar sem ég starfa tvo virka morgna í viku með lágþröskulda hjúkrunarmóttöku. Aðra daga er ég á vettvangi eða á legudeildinni. Við erum eins og er tvær sem erum með hjúkrunarmóttökuna samtals þrjá morgna vikunnar. Ylja er neyslurými á vegum Rauða krossins þangað sem einstaklingar geta komið og notað sín vímuefni á öruggum stað, fá þar meðal annars hreinan búnað og stuðning frá starfsfólki. Hjúkrunarmóttakan er svo í öðru rými í sama húsnæði eða gámastæðu öllu heldur. Þar getur fólk komið og fengið heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálst og án þess að þurfa að bóka tíma áður. Það er mörgum af okkar skjólstæðingum mikilvægt að geta hitt starfsmann Landspítala utan sjúkrahússins sjálfs því margir treysta sér ekki til að leita þangað, meðal annars vegna fyrri reynslu.
Ég fæ mér kaffibolla og fer yfir tímabókanir vikunnar. Dagarnir eru breytilegir og engin leið að stjórna flæðinu, það má segja að bókanirnar séu nokkurs konar tékklisti til að ná að halda betur utan um hlutina. Ég nýti líka tímann til að fara yfir blóðprufuniðurstöður úr lifrarbólgu C og HIV- skimunum liðinnar viku. Það eru nokkrir bókaðir í lyfjaafhendingu fyrir lifrarbólgu C og HIV- lyf í dag. Þar af eru einhverjir sem munu sækja lyfin niður í Ylju en önnur sem fá þau afhent á vettvangi.
Fyrsta koma dagsins er einstaklingur með húðsýkingu á framhandlegg, abscess, sem ég sting á og losa úr. Ég tel ekki þörf á sýklalyfjum eins og er en við þurfum að fylgjast með viðkomandi næstu daga og við sammælumst um að hittast aftur í Ylju næsta dag. Til öryggis fæ ég símanúmerið hjá honum og bóka tíma næsta dag. Sýkingarnar geta oft verið flóknar að meta og í þeim tilfellum nýti ég mér símaráðgjöf frá hjúkrunarfæðingum eða læknum á göngudeild smitsjúkdóma.

Næsta koma er einstaklingur sem óskar eftir aðstoð við að komast á Buvidal-forðalyf (buprenorphine) við ópíóðafráhvörfum. Ég sendi inn flýtibeiðni fyrir þeirri meðferð til SÁÁ. Það er nýlegt að hjúkrunarfræðingar geti sent þessar flýtibeiðnir og það hefur reynst mörgum mjög vel meðal annars vegna þess að ferlið gengur frekar hratt fyrir sig og krefst yfirleitt ekki innlagnar á Vog. Það er mjög stór hluti af starfinu að tengja einstaklinga við aðra þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og við erum í miklum samskiptum við bæði geð- og kvenlækningasvið í því samhengi. Við erum einnig að grípa einstaklinga eftir innlagnir á legudeildum í eftirfylgni.
Sálræni stuðningurinn mikilvægastur
Svona rúllar dagurinn áfram, komurnar eru fjölbreyttar og ég tek nokkrar blóðprufur inn á milli í skimun fyrir lifrarbólgu C og HIV. Vinnan sem mestur tími nýtist í og er sú allra mikilvægasta hjá okkur er sálræni stuðningurinn; að byggja upp tengsl og traust. Þeir sem þurfa að nýta sér þjónustuna í hjúkrunarrýminu í Ylju eru nær allir einstaklingar sem upplifa að heilbrigðiskerfið og flest önnur kerfi hafi brugðist þeim á marga vegu. Það er því mikilvægt að geta verið til staðar og veitt stuðning en oft vildi maður geta gert meira.
Seinnipartinn þennan dag fer ég með samstarfsmanni á vettvang. Þá förum við og hittum einstaklinga þar sem þeir eru staddir á hverjum tíma. Við erum meðal annars að taka blóðprufur og sinna umbúðaskiptum. Upp á síðkastið hefur mestur tími farið í berklasmitrakningu. Fyrir um ári síðan kom upp berklasmit í neyðarskýli borgarinnar og í kjölfarið fór af stað smitrakning samkvæmt sóttvarnarlögum sem göngudeild smitsjúkdóma hefur haldið utan um. Í því felst meðal annars að taka blóðprufur og röntgenmyndir en stærsta verkefnið þar er að hafa uppi á einstaklingunum sem eru á listanum og hafa yfirsýn. Þegar þetta berklaverkefni fór af stað voru ráðnir inn starfsmenn sem eru jafningjar en hlutverk þeirra hefur skipt sköpum í að ná þessari yfirsýn og skapa traust. Helstu hindranir við smitrakninguna eru krefjandi aðstæður, heimilisleysi og tungumálaörðugleikar. Í kvöld vorum við aðallega í berklaskimunum, við fórum og hittum nokkra víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og kláruðum rúntinn í neyðarskýlinu. Við afhentum þar í leiðinni einum einstaklingi lifrarbólgulyf og enduðum daginn á að fara með blóðprufurnar sem við tókum upp á Landspítala.
Eftir vinnudaginn skelli ég mér á crossfit-æfingu þar sem ég fæ útrás og næ að núllstilla mig sem er svo gott.
Ég elska vinnuna mína og er þakklát fyrir að fá að vinna á sviði skaðaminnkunar. Ég fæ að hitta fjölbreyttan hóp af skemmtilegu fólki daglega en aðstæðurnar og málefnin eru oft krefjandi.





