Fara á efnissvæði
Frétt

Víðtækur stuðningur við hjúkrunarfræðinga í Svíþjóð og Noregi

Samvinna hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum, SSN, hefur sent stuðningsyfirlýsingu til hjúkrunarfræðinga í Svíþjóð og Noregi fyrir hönd félaga hjúkrunarfræðinga á Íslandi, Danmörku, Finnlandi og Færeyjum.

„Kæru hjúkrunarfræðingar, það standa 340 þúsund hjúkrunarfræðingar með ykkur, bestu kveðjur frá Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Finnlandi og Danmörku,“ segir í bréfi Lill Sverresdatter Larsen, forseta SSN. Fjölmörg fleiri samtök hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðir Vårdförbundet, þar á meðal Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN.

Í Noregi hafa stjórnvöld stöðvað aðgerðir vegna áhrifa þeirra á samfélagið og hefur viðræðum við opinbera launagreiðendur verið frestað fram á haust. Í Noregi snúa kröfur hjúkrunarfræðinga að samkeppnishæfum kjörum og betri starfsaðstæðum.

Þörf á breytingum í Svíþjóð

Í Svíþjóð hafa verkfallsaðgerðir Vårdförbundet, heildarsamtaka heilbrigðisstétta í Svíþjóð, staðið í rúmar þrjár vikur. Kröfur hjúkrunarfræðinga þar snúa að styttri vinnutíma og betri starfsaðstæðum.

Sineva Ribeiro, formaður Vårdförbundet, segir álagið óhóflegt og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða. Frá 2010 til 2023 hafa veikindi vegna álags fimmfaldast meðal heilbrigðisstarfsfólks í Svíþjóð, langmest konur. Vandinn eru starfsaðstæðurnar.

„Þetta háa hlutfall veikinda af völdum álags yrði aldrei samþykkt af launagreiðendum í starfsgreinum þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta,“ segir Sineva í pistli á vef Vårdförbundet. „Margt starfsfólk vinnur tvöfaldar vaktir, vinna yfir hátíðirnar og taka sér aldrei pásu. Þetta er að kosta þau heilsuna. Að leyfa þessu ástandi að halda áfram verður mjög dýrt fyrir ríkið, sveitarfélög og á endanum skattgreiðendur. Breytinga er þörf, strax! Þetta er það sem verkfallsaðgerðirnar okkar snúast um.“