Fara á efnissvæði
Viðtal

„Við höfðum ótrúlega mikil áhrif til breytinga“

Sigríður Ólafsdóttir var í fyrsta hópnum sem nam hjúkrunarfræði við HÍ.

Viðtal: Sölvi Sveinsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og úr einkasafni

Sigríður Ólafsdóttir var í fyrsta hópnum sem hóf nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Í tilefni af 50 ára afmælis námsbrautarinnar rifjaði hún upp námsárin og starfsferilinn. Það gekk mikið á í upphafi og þessi fyrsti hópur þurfti að ryðja braut sína bæði í skólanum en einnig á vinnumarkaði. Viðtalið fór fram á Landakoti þar sem Sigríður hefur varið stærstum hluta starfsævi sinnar þar. Í dag starfar hún sem hjúkrunarfræðingur á líknardeild aldraðra á Landakoti.

Það var fyrir rælni sem Sigríður fór í hjúkrunarfræði í Háskólanum. „Ég ætlaði ekki í hjúkrun, ég ætlaði að verða meinafræðingur en var of sein að sækja um. Mig langaði að halda áfram námi þannig að ég og Úlfhildur Grímsdóttir vinkona mín innrituðum okkur í Hjúkrunarskólann. Daginn áður en skólinn átti að byrja hringdi Þorbjörg Jónsdóttir skólastjóri í okkur og sagði okkur frá því að það væri að byrja Hjúkrunarfræðideild uppi í Háskóla og hvort það væri ekki rakið fyrir okkur að fara frekar þangað. Hugsaðu þér, hún fær þarna vel undirbúna stúdenta í skólann sinn en segir okkur að fara frekar í Háskólann. Hún var ein af þessu fólki með framtíðarsýn, svoldið öðruvísi en margir aðrir. Við hugsuðum eiginlega ekki neitt enda var ekki tími til að hugsa þetta. Við ákváðum að slá til og vorum mættar fljótlega upp í Háskóla blautar á bakvið eyrun.“

Stór áskorun fyrir brautryðjendur

„Þetta var ævintýri, námsárin voru rosalega skemmtileg,“ segir Sigríður þegar hún lýsir því hvernig var að vera í fyrsta hópnum. „Þetta var ekki stór hópur og við urðum fljótt nánar. Það hjálpuðust allir að og við fylgdumst vel með hvernig gekk hver hjá annarri. Svo vissi enginn hvert þetta nám myndi leiða okkur eða hvað við vorum að fara gera eftir námið. Það var einhver spenna allan námstímann sem hélt manni við efnið. Það hefur ræst úr þessum hópi og samanstendur hann af stjórnendum, doktorum, ráðuneytisfólki og auðvitað hjúkrunarfræðingum í klínik á öllum sviðum hjúkrunar. Við vorum 14 sem lukum námi og erum enn góðar vinkonur. Því miður lést bekkjarsystir okkar Guðrún Marteinsdóttir fyrir aldur fram. Það var ákaflega sorglegt enda frábær manneskja sem var við það að ljúka við doktorsnám sitt í hjúkrunarfræði þegar hún lést. Nafnbótina fékk hún eftir andlátið.“

„Við vorum algjörir brautryðjendur og það var rosalega stór áskorun fyrir mann persónulega að sjá hvað maður gæti, það var svoldið óljóst. Þetta var óskrifað blað þannig að námi loknu var maður tilbúin að takast á við allt mögulegt bara til að sjá hvort maður gæti þetta ekki örugglega. Ég held að barningurinn hafi styrkt okkur mjög mikið sem hóp. Þegar maður er að berjast í mörg ár fyrir einhverju þá mótar það mann. Við vildum hafa áhrif á námsbrautina og að hún yrði sem best sem gekk nú misvel. Stundum var ofboðslega mikið af einhverju eins og til dæmis í lífrænni efnafræði, sem er skemmtilegt fag. Þá var búið að setja upp kennslu í verklegum tilraunum sem var minnir mig á laugardögum eftir hádegi. Þannig eyddum við öllum laugardögunum í þetta. Okkur fannst að það þyrfti að fækka þessum tilraunum. Ég og Úlfhildur Grímsdóttir töluðum við Davíð Davíðsson prófessor til að óska eftir að þessum tilraunum yrði fækkað. Hann var mjög skemmtilegur maður og fannst greinilega gaman að við kæmum og hefðum skoðun á þessu. Hann ætlaði samt greinilega ekki að leyfa okkur að hafa neitt um þetta að segja. Hann fór að tala um hvað lífræn efnafræði væri nauðsynleg og við þorðum ekki að mótmæla því. Það endaði þannig að við löbbuðum út með fjórar tilraunir til viðbótar. Stelpurnar voru ekki sáttar með okkur,“ segir Sigríður og hlær.

Krefjandi að koma út á vinnumarkaðinn

„Það gekk á ýmsu á námsárunum en flæðið var á einhvern hátt alltaf með okkur.“ Sigríður segir frá skemmtilegri minningu eftir krefjandi próf. „Prófið kláraðist seinni part dags og við ákváðum að fá okkur kokteila eftir það á Mímisbar. Þar var einnig eldri maður sem var greinilega fastakúnni sem kom í ljós að var kaupfélagsstjóri utan að landi. Við fengum okkur kokteilinn Grasshopper á barnum og ræddum saman um hversu ósanngjarnt prófið hefði verið. Við vorum metnaðarfullar og vildum gera okkar allra besta í skólanum og vorum í uppnámi eftir prófið. Þegar við vorum búnar að sitja í dágóða stund sáum við að það voru komin 14 glös af Grasshopper á barinn. Þá kom í ljós að kaupfélagsstjórinn stóð á bak við þetta. „Stelpur mínar, ég sé hvað þið eruð leiðar að ég ætla að bjóða ykkur upp á sjúss,“ sagði hann. Þetta hélt áfram og það kom önnur röð af drykkjum á barinn fljótlega. Svo segir ein í hópnum að hún sé orðin svöng. Kaupfélagsstjórinn var ekki lengi að bregðast við því og bað um pönnukökur á línuna. Stuttu seinna var búið að dekka upp Súlnasalinn og við fengum pönnukökur með rjóma og kaffi. Þetta var alveg lýsandi fyrir það hvernig umhverfið vann oft með okkur.“

Sigríður segir að það að fara í gegnum svona nám sé reynsla sem hún búi að alla ævi. „Eftir útskrift vorum við tilbúnar til að láta til okkar taka. En það var krefjandi að koma út á vinnumarkaðinn sem var ekki tilbúinn til að taka á móti háskólamenntuðum hjúkrunarfræðingum. Við vorum farnar að heyra blammeringar úti í samfélaginu og hjá sumum eldri hjúkrunarfræðingum um að við gætum ekki neitt, kynnum ekki neitt og vissum ekki neitt.

Eftir á hugsar maður kannski skiljanlega því þetta var ógn við þeirra tilveru. Allt í einu átti að breyta öllu og þau voru ekkert höfð með í ráðum. Við tókum þá afstöðu að við ætluðum ekki að láta þetta trufla okkur því við vorum að verða hjúkrunarfræðingar og vorum spenntar að fara vinna og láta á okkur reyna.“

Ekkert stéttarfélag vildi taka við kjaramálum hópsins

Að námi loknu tók við kjarabarátta en ekkert stéttarfélag var tilbúið að taka við kjaramálum hópsins. Úr varð að þessar ungu konur hófu kjarabaráttu í heimi þar sem karlar réðu ríkjum. „Við ætluðum að fá að ganga í Hjúkrunarfélagið en svo treysti félagið sér ekki til að taka okkur inn sem einhvern sérstakan hóp,“ segir Sigríður.

Hún lýsir því hvernig við tók barátta sem endaði að lokum fyrir kjaradómi „Bandalag Háskólamanna (BHM) vildi ekki taka inn svona lítið félag en að lokum var stofnað lítið félag innan BHM sem hét Útgarður sem var samansafn af nokkrum fámennum háskólastéttum. Okkar fyrstu samningar enduðu fyrir kjaradómi. Þetta var mjög kjánaleg uppstilling. Við voru rétt rúmlega tvítugar stelpur í kjaranefnd sem þurftum að mæta fyrir kjaradóm sem var skipaður fimm stútungs körlum. Við vorum eins og litlir grísir. Þessir menn ákváðu að launin okkar ættu að vera lægri en laun hjúkrunarfræðinga úr Hjúkrunarskólanum fyrstu níu mánuðina í starfi. Þessi ákvörðun var byggð á einhvers konar hugmyndum sem voru í samfélaginu um að við hefðum ekki nægilega kunnáttu og starfsreynslu. Það fór því þannig að laun háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga voru lægri en þeirra sem komu úr Hjúkrunarskólanum. Þannig við áttum í vök að verkjast. Þetta var mjög brött brekka að þurfa að klífa.“

Hjúkrunarfræðingar í hópnum fundu þó strax fyrir því að vera eftirsóknarverðir starfskraftar. Ein af ástæðunum fyrir því að áhersla var á að færa hjúkrunarfræði í háskólanám var að það vantaði hjúkrunarkennara. „Það voru margir æstir í að njóta starfskrafta okkar, við fengum strax tilboð um að sinna kennslu, til dæmis við kennslu framhaldsnáms í Nýja Hjúkrunarskólanum og við að kenna ljósmæðrum hjúkrunarfræði. Það er áhugavert að hugsa til þess að við vorum oft að kenna fólki sem var á hærri launum en við,“ segir Sigríður.

Brautryðjendur í hjúkrunarskráningu og sjúklingafræðslu

Viðtalið fór fram á Landakoti þar sem Sigríður hefur, eins og fyrr segir, varið stórum hluta starfsævi sinnar. Ferillinn hófst þó á Landspítala þar sem Sigríður réð sig á nýopnaða gjörgæsludeild þar sem hún starfaði í þrjú ár. „Deildarstjórinn þar, Laufey Aðalsteinsdóttir, tók okkur ofsalega vel. Hún er karakter sem er með þægilegt fas, alltaf róleg. Maður hafði góðan stuðning af henni. Við vorum þrjár bekkjarsysturnar sem réðum okkur þangað. Fljótlega fórum við að sjá hluti sem mættu betur fara og var því vel tekið.“

Næst tók Sigríður að sér deildarstjórn á skurðlækningadeild á Landspítala og þar var hún í þrjú ár. „Ég veit ekki hvað kom yfir mig en ég ákvað að sækja um þessa stöðu og fékk hana. Þetta var mjög skemmtilegur tími. Hjúkrunarforstjóri á þeim tíma var Vigdís Magnúsdóttir en hún hafði alltaf verið okkur háskólanemum hliðholl. Hún þekkti háskólamenntun frá Bandaríkjunum þó að hún væri ekki með slíka menntun sjálf gerði hún sér grein fyrir því að það væri nauðsynlegt að koma háskólamenntun á hérlendis. Hún tók mér vel og ég held að hún hafi líka verið spennt að sjá hvað þessi stelpa gæti gert. Vigdís var til í breytingar og tók öllum hugmyndum fagnandi. Á deildinni var starfandi elsti yfirlæknirinn, Páll Gíslason, og ég varð yngsti deildarstjórinn. Við unnum mjög vel saman. Á deildinni náðist upp góð stemning í þéttum hópi af ungum og hressum hjúkrunarfræðingum og það voru allir tilbúnir að leggja á sig.“

Við tók lærdómsríkur tími þar sem Sigríður nýtti þekkingu sína úr háskólanum. „Það var enn þá gamaldags rapport þegar ég byrjaði á deildinni. Það var bara skráð hvað var að gerast þennan dag og ekki settar fram greiningar eins og ég lærði í háskólanum. Við Vigdís hjúkrunarforstjóri höfðum verið að ræða skráningarmálin og vorum sammála um að þessu þyrfi að breyta. Einn daginn kemur hún til mín og segist eiga forláta möppur fyrir skráningu hjúkrunar og hún stingur upp á því að byrja að nota möppurnar. Ég segi við hana að við myndum skella þessu í gang og þá byrjuðum við að skrá hjúkrun samkvæmt hjúkrunarferlinu. Þetta voru mjög flottar möppur sem þú opnaðir og sást hjúkrunaráætlunina. Þetta var að vísu á ensku. Hún hafði ekki komist í að koma þessum möppum inn á deildir. Þarna var ég tilbúin í verkefnið með henni og þar með fór það af stað. Við vorum eina deildin í svolítinn tíma sem var með þessar möppur. Ég held við höfum verið með þessa skráningu í þrjá daga þegar Vigdís fór á hjúkrunarstjórnendafund úti á landi og tilkynnti að við værum byrjuð með skráningu samkvæmt hjúkrunarferli. Ég held að henni hafi fundist hún vera með pálmann í höndunum. Ég vil meina að við höfum verið miklir brautryðjendur að koma hjúkrunarskráningu í þetta kerfi. Smám saman fóru fleiri að vilja taka þátt. Nemendum sem komu á deildina þótti þetta líka spennandi. Innleiðingin var nokkra ára ferli en þegar maður er ungur og óreyndur þá finnst manni ekkert mál að gera hlutina.“

Annað sem Sigríður kom auga á að væri ekki í nógu góðum farvegi var sjúklingafræðsla sem þekktist varla áður: „Við gerðum rannsókn í náminu hverjir væru að gefa sjúklingum upplýsingar fyrir aðgerð og í ljós kom að sjúklingar fengu almennt lítið af upplýsingum og að þeir upplifðu að þá vantaði upplýsingar. Það var ekki lenskan að uppfræða fólk og því síður aðstandendur. Læknum fannst þeir ekkert þurfa að vera útskýra voða mikið. Einn þátttakandi lýsti því að hafa fengið upplýsingar frá skúringakonunni fyrir aðgerð. Þessu vildi ég breyta og fórum við þarna að gefa sjúklingum skriflegar upplýsingar um aðgerðir, rannsóknir og inngrip. Ég var úr Versló og flink að vélrita svo ég var fljót að setja svona fræðsluefni á blað. Ekkert af þessu var til þá en í dag er heil deild á Landspítala sem sér um sjúklingafræðslu.“

Var kölluð járnfrúin

Sigríður var skeleggur stjórnandi og hafði traust og stuðning sinna stjórnenda til að innleiða breytingar. Það blés þó líka á móti eins og alltaf. Sumum fannst Sigríður hafa of mikil áhrif á starfsemi deildarinnar. „Það var læknir á annarri deild sem spáði mikið í það hver þessi frekja væri þarna á skurðlækningadeildinni og hann fór að kalla mig járnfrúnna sem mér fannst nú bara ágætt enda ekki leiðum að líkjast. Það var þetta að hjúkrunarfræðingar hefðu skoðun á hlutunum, það var eitthvað sem aðrar fagstéttir voru ekki vanar. Viðmót sem hjúkrunarfræðingar sýndu vanalega ekki. Ég var ekki tilbúin til þess að taka blint upp fyrirmæli – þau yrðu að vera í samhengi við ástand sjúklings. Líka að það mætti tala um þetta án þess að einhver færi á límíngunum. Nú þykir eðlilegt að taka samtalið ef einhverjum finnst eitthvað geta farið betur. Þetta jafnræði hefur held ég þróast svoldið út frá háskólamenntuðum hjúkrunarfræðingum.“

Sigríður á Landakoti þar sem hún starfar.

Eignaðist fimm börn og tók sér pásu frá hjúkrun

Þegar Sigríður lét af störfum á skurðlækningadeildinni fór hún að starfa á Landakoti, sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeildinni, við klíníska kennslu hjúkrunarnema og sem hjúkrunarframkvæmdastjóri en eftir það tók hún nokkurra ára hlé frá hjúkrun. „Eftir að hafa eignast fimm börn fann ég að ég þurfti aðeins hvíld frá starfinu svo ég lét gamlan draum rætast um að verða búðarkona niðri í bæ. Þar var ég í 15 ár eða til ársins 2008 þegar ég snéri aftur á Landakot. Mörgum fannst skrítin ákvörðun hjá mér að fara að vinna á Landakoti í öldrunarmálunum en ég var tengd staðnum og langaði til að vinna þar. Það hefur oft verið áskorun og erfitt en okkur hefur tekist að bæta verkferla og þróa þjónustuna sem við veitum hér. Þetta var bara enn ein áskorun til að takast á við og ég sé ekki eftir því að hafa komið hingað.“

Til bóta fyrir samfélagið að færa námið á háskólastig

Nýjasta verkefni Sigríðar er að vinna á nýstofnaðri líknardeild fyrir aldraða á Landakoti. Sigríður stóðst ekki mátið að taka þátt í stofnun deildarinnar þegar hún frétti af henni. Deildin hefur verið rekin nú í tvö ár og gengur orðið nokkuð vel.

Í haust verður Sigríður sjötug en hún hefur ekki hug á að hætta að starfa sem hjúkrunarfræðingur. „Ég hef ekki enn þá fundið þessa tilfinningu eða hugsun að ég vilji hætta að vinna, ég bíð eftir henni,“ segir hún brosandi. Sigríður hefur mikla ánægju af því að hjúkra og ætlar að vinna áfram á meðan hún hefur líkamlega getu og gaman af starfinu. Þegar hún var spurð hverju það hafi breytt að hjúkrunarfræði færðist á háskólastig svaraði hún: „Ég held að það hafi verið til bóta fyrir samfélagið. Ef við horfum til nágrannalandanna þá vorum við með þeim fyrstu að leggja í þessa breytingu. Það var framsýnt fólk sem stóð fyrir þessu. Við njótum góðs af því núna en þegar maður lítur til baka sér maður hvað það hefur mikið breyst á sjúkrahúsum, heilsugæslum, hjúkrunarheimilum og fleiri stöðum til batnaðar með aukinni menntun hjúkrunarfræðinga.“