Fara á efnissvæði

Ráðning

Hjúkrunarfræðingar eru almennt ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Ráðningasamningur

Ráðningarsamningur er samningur á milli starfsmanns og vinnuveitanda þar sem kveðið er á um vinnuframlag starfsmanns í þágu vinnuveitandans gegn tilteknu gjaldi í formi launa og annarra starfskjara frá vinnuveitanda.

Skylt er að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi milli starfsmanns og forstöðumanns/vinnuveitanda við upphaf ráðningar. Frávik eru frá því ef starfsmaður er einngis ráðinn til eins mánaðar eða skemur eða ekki meira en átta klukkustundir á viku.

Það að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur er bundið í lög á opinberum vinnumarkaði. Það er hins vegar áríðandi að þeir sem ráða sig til starfa á almennum vinnumarkaði geri skriflegan ráðningarsamning og vandi vel til verka, vísi t.d. í kjarasamning og tryggi að taka inn ákvæði í ráðningarsamninginn sem kveður á um launahækkanir og launaþróun.

Eftirfarandi upplýsingar verða að koma fram í ráðningarsamningi :

  • Nafn, heimilisfang og kennitala vinnuveitanda/stofnunar
  • Nafn, heimilisfang og kennitala starfsmanns
  • Vinnustaður
  • Starfsheiti, stutt útlistun á umfangi og ábyrgðarsviði
  • Ráðningarkjör, t.d. með tilvísun til launataxta og aðrar greiðslur
  • Vinnutímaskipulag (dagvinna, vaktavinna, fastar næturvaktir, bakvaktir o.s.frv.)
  • Upphafstími ráðningar og lengd ráðningar, sé hún tímabundin, ásamt uppsagnarfresti
  • Orlofsréttur
  • Starfshlutfall
  • Stéttarfélag og kjarasamningur
  • Lífeyrissjóður

Ráðningarsamningar geta verið tímabundnir eða ótímabundnir. Ef ráðning er ótímabundin þarf að koma fram hver reynslutíminn er, ef einhver. Ef ráðningin er tímabundin þarf upphaf ráðningar og starfslok að koma fram. Í ráðningarsamningi skal tilgreindur gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Uppsagnarfrestur vinnuveitanda getur verið lengri en uppsagnarfrestur starfsmannsins á grundvelli kjarasamningsákvæða. Enginn uppsagnarfrestur er á tímabundinni ráðningu nema því aðeins að það sé sérstaklega tekið fram í ráðningarsamningi.

Allar breytingar sem verða á ráðningakjörum umfram breytingar sem verða vegna laga, kjarasamninga eða vegna annarra stjórnvaldsfyrirmæla á að staðfesta með endurnýjun á ráðningarsamningi/breytingartilkynningu. Þetta á við um allar breytingar sem gerðar eru á ráðningarkjörum og má sem dæmi nefna breytingu á starfshlutfalli, launaflokki, vinnutíma o.s.frv.

Formleg aðild að félaginu: Rétt til aðildar að Fíh eiga þeir sem hafa leyfi til þess aðstunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing. Umsókn þarf að fylgja staðfesting um hjúkrunarleyfi á Íslandi.