Fara á efnissvæði

Starfsþróun hjúkrunarfræðinga

Starfsþróun er samstarfsverkefni starfsmanns og stjórnenda og þarf að eiga sér stað til að hægt sé að mæta auknum kröfum á vinnumarkaði og síbreytilegu starfsumhverfi. Þú getur haft áhrif á í hvaða átt þú þróast í starfi og gert leiðina markvissari m.a. með því að kynna þér helstu tól og tæki og hugtök þegar kemur að starfsþróun.

Starfsmannasamtal og starfsþróunaráætlun

Markmið með starfsmannasamtali er að koma á góðum samræðuvettvangi milli starfsmanns og yfirmanns um starfið, auka skilning á gagnkvæmum kröfum og væntingum, veita endurgjöf um frammistöðu starfsmanns, ræða starfið og starfsumhverfi, yfirfara starfslýsingu og tryggja að starfsmaður þróist í starfi í takt við starfsemi og markmið vinnustaðarins. Æskilegt er að starfsmannasamtal fari fram árlega hið minnsta. Kjaramál eru venjulega ekki til umræðu í starfsmannasamtali.

Nauðsynlegt er að báðir aðilar undirbúi sig vel fyrir samtalið m.a. með því að yfirfara starfslýsingu, verkefni, verkefnastöðu og samkomulag/starfsþróunaráætlun frá samtali fyrra árs.

Starfsmannasamtöl byggja á viðtalsramma sem báðir aðilar hafa skoðað fyrir samtalið. Trúnaður á að ríkja um samtalið sjálft en gjarnan er gengið frá starfsþróunaráætlun í lok starfsmannasamtals, sem ríkir ekki endilega trúnaður um. Báðir aðilar bera ábyrgð á framkvæmd slíks samkomulags, þ.e. um starfsþróun næstu missera. Mælt er með því að starfsmaður og yfirmaður ræði saman reglulega yfir árið til að taka stöðuna á þeim þáttum sem starfsþróunaráætlunin nær til.

Mikilvægt er að horfa fram á veginn í starfsþróunarsamtali og taka fyrir verkefni og mál sem tilheyra nútíð og framtíð. Starfsþróunaráæltun getur verið af ýmsum toga og snúið að:

  • Starfsþróun: sérstakar óskir/tillögur um námskeið, fræðslu, stuðning, vinnutíma, flutning milli deilda, breytt ábyrgðarsvið, breytt hlutverk o.fl.
  • Persónulegum og faglegum markmiðum: s.s tímaáætlanir, samvinna, samskipti, þjónustu, starfsumhverfi, fjármál o.fl.

Það er líklegra til árangurs að skoða verkefnin sem eru í gangi núna og næstu misseri og setja markmið sem hafa áhrif á frammistöðu í framtíðinni. Vinnustaður þar sem virk starfsþróunaráætlun er til staðar skapar umhverfi sem stuðlar að faglegri þróun starfsmanna og auknum árangri.

Áttu rétt á styrk frá sjóðum Fíh?

Kannaðu rétt þinn til styrkja vegna náms, námskeiða, ráðstefna eða annarra verkefna tengdum faginu.

Lesa meira um styrki og sjóði

Fagdeildir hjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarfræði er fag sem er í stöðugri þróun á fræðilegum grunni. Fagdeildir eru félagslegur vettvangur þar sem hjúkrunarfræðingar geta deilt sinni sameiginlegu reynslu, stuðlað að framþróun á sínu sérsviði og aukið þekkingu sína.

Lesa meira um fagið