Fara á efnissvæði

Vinnuumhverfi

Vellíðan í vinnu er mikilvæg. Starfsumhverfið á að vera þannig að það auki vellíðan á vinnustað og byggi góðan starfsanda. Á góðum vinnustað á að ríkja gagnkvæm virðing, traust, umburðarlyndi, jafnræði og öryggi.

Skýr mörk

Í kjölfar #metoo byltingarinnar er ljóst að nauðsynlegt er að setja skýrari mörk í samskiptum svo ljóst verði hvers konar hegðun er óásættanleg.

Hvað er óæskileg hegðun og áreiti og hvernig getur sá sem verður fyrir slíku brugðist við?

Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Óásættanleg hegðun

Ábyrgð

Þegar að yfirmanni berst ábending eða kvörtun um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað skal hann bregðast við eins fljótt og kostur er. Það sama gildir þegar rökstuddur grunur er um að einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi í garð starfsmanna eða stjórnenda á sér stað innan vinnustaðarins. Atvinnurekandi skal grípa til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtaki sig ekki á vinnustaðnum.

Starfsmaður sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað er hvattur til að upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það. Starfsmaðurinn þarf að vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til. Ef um alvarlegt ofbeldi/áreitni er að ræða er þolandi hvattur til að kæra slíkt til lögreglu.

Reglugerð um um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum byggir á vinnuverndarlögum, lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í þeim segir að atvinnurekendur beri ábyrgð á starfsumhverfinu í heild og skulu tryggja heilsusamlegar og öruggar vinnuaðstæður á vinnustaðnum út frá margvíslegum sjónarmiðum. Þetta á að gera m.a. með því að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

EKKO

Á vef VIRK starfsendurhæfingasjóðs er að finna gagnlegt efni um EKKO á vinnustað (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi), þ.m.t. upplýsingar og ráð í forvarnarskyni fyrir starfsfólk og stjórnendur.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd vinnuverndarlaganna. Vinnueftirlitið er hlutlaus aðili og tekur aldrei beinan þátt í úrlausn mála innan vinnustaðar. Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu í en er ekki úrskurðaraðili um hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað. Stofnuninni ber að stuðla að og efla forvarnir t.d. með leiðbeiningum og fræðslu og sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta í vinnuumhverfinu þegar við á.

Ábyrgð þess að einelti verði upprætt er alfarið hjá atvinnurekanda. Vinnueftirlitið skal þó sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta ef hann hefur ekki sinnt skyldum sínum á viðunandi hátt hvað varðar öryggi og heilbrigði á vinnustað. Ef starfsmaður hefur kvartað undan einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað til atvinnurekanda og atvinnurekandinn hefur ekkert gert í málinu eða gripið til ófullnægjandi úrræða þá er hægt að kvarta undir nafni til Vinnueftirlitsins með því að fylla út tilkynningu með kvörtun um einelti eða samskiptavanda á vinnustað (Ábendingar). Starfsmaður getur samt sem áður óskað sérstaklega eftir nafnleynd.

Jöfn meðferð

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði tóku gildi 1. september 2018.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Með skýru banni við mismunun á vinnumarkaði er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku atvinnulífi og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Trúnaðarmenn

Trúnaðarmaður er tengiliður milli félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og stjórnenda stofnanna annars vegar og milli félagsmanns og kjara- og réttindasviðs félagsins hins vegar.

Sjá nánar