Fara á efnissvæði
Viðtal

Tímarit hjúkrunarfræðinga 100 ára

Hundrað ára saga tímaritaútgáfu hjúkrunarfræðinga.

Í ár eru liðin 100 ár frá því fyrsta tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga kom út. Tímaritið hefur eðlilega tekið miklum breytingum á heilli öld og vaxið í takt við tímann og tíðarandann en hjúkrunarfræðingar og fagið hafa alla tíð verið rauði þráðurinn í tímaritinu.

Í ritstjórn fyrsta tímaritsins sátu Guðný Jónsdóttir, Sigríður Eiríksdóttir og Kristjana Guðmundsdóttir, að frumkvæði Guðnýjar. Frá upphafi hafa ávallt verið minnst þrír til fjórir hjúkrunarfræðingar í ritstjórn eða ritnefnd tímaritsins. Tilgangurinn með tímaritinu var fyrst og fremst að efla skilning á faginu. „Við eigum að skrifa það allar. Við eigum að leggja það besta af þekkingu okkar og reynslu í það, af trú á málstað okkar og framsóknarhug. Undir því er líf þess komið,“ segir í leiðara fyrsta tölublaðsins sem kom út í júní árið 1925. Og tímaritið lifir vegna þess að hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir að leggja til þess efni og miðla þannig þekkingu sinni. „Okkur nægir ekki fjelagsblað. Við þurfum prentað tímarit – við þurfum að standa í lifandi sambandi við þjóðina sem við vinnum hjá, kenna henni, fræða og leiðbeina,“ skrifaði Guðný í desember 1925.

Fyrsta ritstjórn Tímarits hjúkrunarfræðinga: Guðný Jónsdóttir, Kristjana Guðmundsdóttir og Sigríður Eiríksdóttir.
Fyrsta tímaritið kom út í júní 1925. Þá var það fjölritað og svo dreift til hjúkrunarfræðinga.

Fjölritað án ljósmynda og íburðar

Tímaritið kom út fjórum sinnum á ári fyrst um sinn og var fjölritað með vélritunarletri án allra ljósmynda eða íburðar. Hjúkrunarfræðingar fengu blaðið sent til sín ókeypis en það var einnig selt í lausasölu um tíma. Engar auglýsingar voru í tímaritinu sökum kreppu í þjóðfélaginu. Efnistök voru allt frá upplýsingum um alþjóðleg samskipti félagsins til fróðleiks sem þýddur var úr erlendum fræðiritum. Tilkynnt var um ráðningar hjúkrunarfræðinga í deildarstjórastöður í blaðinu og einnig mátti finna tilkynningar ef hjúkrunarfræðingar gengu í hjónaband. Öll tölublöðin, hundrað ára saga Tímarits hjúkrunarfræðinga, eru varðveitt á Landsbókasafni Íslands og aðgengileg á Hjúkrun.is og í gegnum vefinn Tímarit.is. Þökk sé góðrar varðveislu á þessum dýrmæta sagnaarfi hjúkrunarfræðinga á Íslandi þá má finna ýmsar upplýsingar um hvernig félagið var rekið í árdaga þess og hvað var hjúkrunarfræðingum ofarlega í huga.

Tímaritið var fyrstu árin vélritað og sett upp á borðstofuborðinu heima hjá Sigríði Eiríksdóttur, og æskuheimili Vigdísar Finnbogadóttur sem átti eftir að verða forseti Íslands. Sigríður sem var formaður frá 1924-1960 skrifaði á 40 ára afmæli tímaritsins árið1965 um hvað knúði þær áfram í útgáfu tímarits þrátt fyrir að vera fámenn stétt og þær sjálfar reynslulausar á ritvellinum: „Okkur varð fljótlega Ijóst, að varðandi hjúkrunarmál, nám, laun og kjör var hér óplægður akur, sem ógerningur væri að koma í rækt, nema með því að berjast fyrir umbótum bæði í ræðu og riti. Stjórnarog heilbrigðisyfirvöld þyrftu að íhuga kröfur tímans og leiðrétta margvíslegt ranglæti, sem viðgekkst vegna fáfræði og sinnuleysis,“ skrifaði Sigríður. „Vinnutími var óhæfilega langur, smithætta mikil í starfi og þar af leiðandi öryggisleysi. Hjúkrunarnám óskipulagt og einungis stuðzt við þær stúlkur, sem af eigin rammleik höfðu brotizt til útlanda til náms. Auk þess þurfti — og það skipti ekki minnstu máli — að þjappa sjálfri stéttinni saman um kjör sín og stöðu í þjóðfélaginu, en þar skorti hinar ungu hjúkrunarkonur oft skilning og framsýni.“

Á fyrstu árum tímaritsins mátti reglulega lesa um byggingu fyrsta sumarhúss hjúkrunarfræðinga sem var að lokum reist í Mosfellsdal. Húsið stendur enn en það var selt úr eigu félagsins í byrjun 21. aldar.

Hjúkrunarkvennablaðið

Árið 1935 tók tímaritið breytingum og varð Hjúkrunarkvennablaðið, var það ákveðið samkvæmt tillögu ritstjórnar þar sem eldra nafnið þótti of langt og tímaritið ávallt kallað Hjúkrunarkvennablaðið í daglegu tali. Í fyrsta tölublaðinu það árið var merki félagsins fyrst sett á forsíðu tímaritsins og var þar á hverju einasta tölublaði áratugina á eftir. Á þeim tíma mátti finna umræður um byggingu sumarbústaðar sem væri eingöngu ætlaður hjúkrunarfræðingum. Með því að fletta fram í tímann má nánast fylgjast með umræðu um staðarval til fjáröflunar til að byggja sumarbústaðinn, allt þangað til hann var tilbúinn til notkunar í lok árs 1936. Síðla árs 1940 ritaði húsnefndin pistil um slæma umgengni í bústaðnum auk þess sem búið væri að skipta um skrá þar sem allir lyklarnir væru ónýtir. Það leynist ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt í tímaritinu og gaman að glugga í gömul blöð.

Í febrúar 1936 kom út fyrsta tölublaðið sem var prentað í prentsmiðju, þar með var hægt að setja á forsíðuna ljósmynd af fyrsta árgangi Hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Þá var kreppan einnig í rénum og auglýsingar tóku að birtast í tímaritinu. Í því tölublaði skrifaði Sigríður Eiríksdóttir formaður. „Fyrir framan mig á borðinu liggur tímaritið okkar frá byrjun, 42 tölublöð. Raddir hafa heyrst um það, að tímaritið, hafi ekki náð tilgangi sínum, hafi fram að þessum tíma ekki verið hinni íslensku hjúkrunarkvennastétt samboðið. Ég skal engan dóm leggja á það mál, en í fámennri stétt, sem til skamms tíma hefur ekki einu sinni getað gert kröfur hliðstæðrar undirstöðumenntunar undir hjúkrunarnámið, er varla að við því að búast, að blað þeirra sé með þeim ritsnilldarblæ, sem einkennir tímarit þau, sem rituð eru af þaulvönum mönnum,“ skrifaði Sigríður. „Hitt býst ég við, að allir þeir er sanngirni unna, muni viðurkenna, að við lestur íslenska tímaritsins í heild, komi í ljós mikill fróðleikur um framþróun íslensku hjúkrunarkvennastéttarinnar, sögu hennar og baráttu undanfarin ár.“

Fyrsta tímaritið sem var prentað í prentsmiðju, fyrsta myndin var af fyrsta árgangi Hjúkrunarkvennaskóla Íslands.

Á þessum tíma var Þorbjörg Árnadóttir hjúkrunarfræðingur mjög virk í að ræða um menntun og gæðamál. Hún hafði lært í Danmörku og Bandaríkjunum og var það henni mikið kappsmál að störf hjúkrunarfræðinga væru í hæsta gæðaflokki. „Hugsjónir hjúkrunarkvennastéttarinnar hafa að mörgu leyti breyst á síðustu árum,“ skrifaði Þorbjörg árið 1937. „Hjúkrunarkonan sem vakti nótt og dag yfir einum sjúkling og eyðilagði heilsu sína á örfáum árum, er að hverfa úr sögunni. Í stað hennar kemur nútíma hjúkrunarkonan sem á að vera kennari og leiðbeinandi almennings, bæði í því, hvernig verjast megi sjúkdómunum og líka hjálpari, þegar veikindi ber að höndum.“

Stríðsárin

Norrænt- og alþjóðlegt samstarf lá niðri á stríðsárunum. Kom þó fram að send hafi verið samúðarskeyti til landa sem ráðist var á, auk þess sem félagið tók þátt í fjáröflunum. Var ákveðið síðar að styrkja ekki aðrar þjóðir en Norðurlandaþjóðirnar á meðan styrjöldinni stóð. Fjallað var ítarlega um stöðuna í Danmörku þar sem hjúkrunarfræðingum var kennt að nota gasgrímur auk þess sem vaka þurfti þriðju hverju nótt á loftvarnarhjálparstöðvum. Hér á landi voru ellefu hjúkrunarfræðingar í hjálparsveit sjálfboðaliða ef til kæmu loftárásir eða aðrar hernaðaraðgerðir.

Umfjöllun um vöntun á hjúkrunarfræðingum frá 1942.

Petrína Þorvarðardóttir starfaði sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í Birmingham öll stríðsárin, hún skrifaði ítarlega grein við stríðslok þar sem hún fór yfir ástandið á meðan því stóð. „Þegar loftárásir fóru að harðna, var alltaf sofið niðri í loftvarnarbyrgjum. Okkur voru gefnar 10 mínútur frá því að merkin voru gefin, til þess að vera komnar niður í byrgin með rúmfatnað og klæddar vinnufötum og með gasgrímur við höndina, ef illa færi,“ skrifaði Petrína. „Það var óskemmtilegt að heyra nótt eftir nótt tugi flugvéla sveima uppi yfir og kasta sprengjum allt í kring. Marga nóttina unnum við við birtuna af eldunum allt í kringum okkur, því að gluggarnir brotnuðu og ljósin biluðu.“ Lýsti hún flestum sjúklingunum sem rólegum og sagði starfsfólkið samtaka í sínum störfum. „Máttum við oft þakka fyrir að komast lífs af eftir nóttina.“

Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands í takt við nýtt nafn félagsins

Strax nokkrum mánuðum eftir að stríðinu lauk hélt stór hópur hjúkrunarfræðinga út á Norðurlandaþing, umfjallanir um slíkar ráðstefnur voru mjög áberandi í tölublöðunum á árunum á eftir. Einnig var töluvert af fræðsluefni auk frásagna af hjúkrunarfræðingum við nám í Bandaríkjunum, Svíþjóð og víðar. Burðarás tímaritsins á þessum árum var að segja frá félagsstörfum auk þess að birta launatöflur og fleira slíkt efni. Einnig var töluvert um þýddar greinar sem og greinar eftir lækna.

Tímaritið hefur að geyma ýmsar áhugaverðar upplýsingar úr starfi félagsins, þar á meðal þessa tilkynningu frá 1941 um að Sigríður Eiríksdóttir hugðist segja af sér sem formaður. Við útgáfu næsta tölublaðs hafði henni snúist hugur en hún átti eftir að gegna embættinu 17 ár til viðbótar.
Ásta Hannesdóttir ritstýrði Hjúkrunarkvennablaðinu árin 1958 og 1959. Hún er nú elsti núlifandi hjúkrunarfræðingurinn.

Árið 1959 skipti félagið um nafn og varð að Hjúkrunarfélagi Íslands, í samræmi við það var ákveðið að breyta heiti tímaritsins í Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands. Við þau tímamót var tekið upp nýtt útlit þar sem forsíðan var prentuð í einum lit ásamt efnisyfirliti sem var þá neðst á forsíðunni. Þegar tímaritið fagnaði 40 ára afmæli sínu árið 1965 skrifaði Sigríður Eiríksdóttir að það væri hennar ósk að tölublöðunum myndi fjölga úr fjórum í sex á ári, ósk sem raungerðist árið 1996. Hún skrifaði einnig um mikilvægi þess að halda á lofti öllum þeim vandamálum hjúkrunarfræðinga sem væru efst á baugi hverju sinni, bæði hvað varðar fræðslu og kjaramál. „Kröfur til þeirra sem taka að sér forystuna og standa í „eldinum“, ef svo má segja, eru nefnilega ekki alltaf sanngjarnar, og er ungu kynslóðinni nauðsyn að vita, að sérhver sigur í menntaog kjaramálum hennar hefur kostað þrotlausa vinnu og áhuga þeirra, sem um málin hafa fjallað. Á þessu sviði hefur tímaritið verið okkur ómetanlegt og eru greinarnar orðnar margar í því, sem fjalla um þróun hjúkrunarstéttarinnar, námskröfur hennar og vinnukjör,“ skrifaði Sigríður fyrir sextíu árum síðan.

Árið 1969 hóf ritstjórnin sjálf að vera með pistla fremst í blaðinu, þáttur sem hefur haldið sér meira en minna síðan. Byrjaði þar ritstjórinn Elísabeth P. Malmberg á að minnast á óvenjumargar greinar um störf hjúkrunarfræðinga. „Greinarnar bera vott um áhuga fyrir starfinu og velvild og skilningi á málgagni stéttarinnar, og ber að lofa þessa viðleitni,“ skrifaði hún.

Ingibjörg Árnadóttir tók við sem ritstjóri árið 1970 og var hún ritstjóri tímaritsins næstu tvo áratugina. „Hefur það verið óumræðilega gefandi verkefni að safna saman því besta lesefni sem fáanlegt er hverju sinni til eflingar hjúkrunarmálum og hjúkrunarstétt og koma því til skila,“ skrifaði Ingibjörg áður en hún fór í stutt námsleyfi árið 1987. „Samstarfið við ritstjórn hefur verið mjög mikilvægt því svo að margþætt starf sem markmiðssetning, efnisval, efnisgerð, umbrot, uppsetning og dreifing tímarits verður aldrei unnið af einstaklingi. Í samvinnu og skoðanaskiptum verður hið skapandi starf sem er burðarás góðs fagtímarits.“ Það voru orð að sönnu sem hafa staðist tímans tönn.

Árið 1978 var nafni tímaritsins breytt aftur, þá í Hjúkrun, var það gert eftir tillögu ritnefndar sem taldi það heiti henta betur á forsíðu en Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands. Á sama tíma var ákveðið að „hressa“ upp á forsíðuna eins og komið er inn á ritstjórnarpistli í fyrsta tölublaðinu, hver árgangur átti þá að hafa sérstakan lit.

Forsíða Hjúkrunar frá 1979, í tilefni af 60 ára afmæli félagsins voru formönnum frá árinu 1924 stillt upp. Sitjandi frá vinstri: Sigríður Eiríksdóttir og María Pétursdóttir. Standandi frá vinstri: Svanlaug Árnadóttir, Anna Loftsdóttir og Ingibjörg Helgadóttir.

Tímarit FHH

Á árunum 1984 til 1992 gaf Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, FHH, út árlegt tímarit sem innihélt að mestu fræðigreinar. Eintök af því tímariti voru nú í vor afhent Landsbókasafni í tilefni af 100 ára afmæli tímaritaútgáfunnar og eru því loks aðgengileg á Tímarit.is. Tilgangur tímaritsins var að vera vettvangur fyrir fagleg skrif og vera hvati til fræðilegra skrifa á sviði hjúkrunar.

Í þeim níu tölublöðum sem komu út birtust ótal fræðigreinar ásamt heimildaskrá. Má þar nefna klíníska hjúkrun í fortíð, nútíð og framtíð, fjölskyldumeðferðir, umönnun alzheimersjúklinga, hugtakaþróun í hjúkrun, hjúkrun og stjórnmál, ásamt hugmyndafræði hjúkrunarrannsókna. FHH var stofnað 1978 og var minna félag en Hjúkrunarfélag Íslands. Félögin tvö hófu sameiningarviðræður og í kjölfar jákvæðrar niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um sameiningu félaganna var ákveðið að sameina tímaritin í Tímarit hjúkrunarfræðinga árið 1993. Félögin sameinuðust svo formlega í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga í janúar 1994 við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu.

Tímarit Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga kom út árlega frá 1984 til 1992, Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélag Íslands sameinuðust í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 1994.

Tímaritið í núverandi mynd hefur haldist nokkuð stöðugt frá árinu 1993, það einkennist af greinum eftir hjúkrunarfræðinga, viðtölum við hjúkrunarfræðinga og fræðilegu efni. Má segja að þarna hafi komið saman áherslur tímarita beggja félaganna með birtingu fræðilegra greina í bland við annað áhugavert efni. Bryndís Kristjánsdóttir kom inn árið 1996 sem fyrsti ritstjórinn sem ekki var menntaður hjúkrunarfræðingur. Tók hún fram í sínum fyrsta ritstjórapistli að tvær raddir væru sífellt á lofti um tímaritið, frá þeim sem vildu helst hafa rannsóknargreinar og annað fræðilegt efni í því, og þeim sem vildu frekar hafa léttara efni. Ákveðið hafi verið að fara bil beggja og birta bæði fræðilegt og léttara efni er tengist faginu og félagsmönnum. Sú ritstjórnarlína hefur í megindráttum haldist síðan.

Tímarit hjúkrunarfræðinga hefur komið út í núverandi mynd frá árinu 1993, í aðdraganda sameiningar Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélags Íslands.

Árið 1996 voru gefin út sex tölublöð, fram til ársins 2017 voru svo gefin út fimm tölublöð á ári. Með tilkomu vefsíðu félagsins og boðleiða í gegnum samfélagsmiðla var ekki talin þörf á fleiri en þremur tölublöðum á ári og hefur sú tilhögun haldið sér til dagsins í dag.

Þorgerður Ragnarsdóttir, áður ritstjóri Tímarits hjúkrunarfræðinga, skrifaði um ósk sína í leiðara fyrsta tölublaðsins árið 1993, eða fyrir rúmlega þrjátíu árum. „Við skulum skrifa það öll. Við skulum leggja það besta af þekkingu okkar og reynslu í það, af trú á málstað okkar og framsóknarhug, ... þegar það kemur til okkar fátæklegt, eigum við að minnast þess að við höfum sjálf brugðist því. Og þar skulum við ekki láta staðar numið. Því sem þar birtist og almenning varðar skulum við miðla áfram svo að allir landsmenn viti hvað það er sem hjúkrunarfræðingar eru að fást við. Undir því er líf okkar sem starfsstéttar komið.“ Tímarit hjúkrunarfræðinga hefur nú verið gefið út í heila öld, það hefur verið málgagn hjúkrunarfræðinga, birt fjöldann allan af ritrýndum greinum og átt sinn þátt í framþróun fagsins. Auk þess hafa birst áhugaverð og skemmtileg viðtöl við hjúkrunarfræðinga og meðal annars viðtal við Sigríði Eiríksdóttur sem birtist í blaðinu árið 1975 og er endurbirt neðst í þessari grein af tilefni 100 ára afmæli tímaritsins.

Ræður og minningar

Algengt efni í tímaritinu eru minningar um látna hjúkrunarfræðinga sem og hátíðarræður fluttar af ýmsum tilefnum. Minningar um einstaklinga hafa haldið áfram að birtast í tímaritinu allt fram á þennan dag en sökum þess að tímaritið er margfalt fleiri blaðsíður nú en áður er efnið ekki jafn áberandi og áður. Þessar minningar og endursagnir af ræðum veita ávallt mikilvæga innsýn í tíðaranda, líf hjúkrunarfræðinga og jafnvel persónuleika.

Harriet Kjær, fyrsti formaður félagsins.

Árið 1928 hélt Harriet Kjær, yfirhjúkrunarkona á Laugarnesi og fyrsti formaður Félags íslenska hjúkrunarfræðinga, boð á Hótel Íslandi. Fjallað er um erindi Sigríðar Eiríksdóttur, þáverandi formanns félagsins, í tilefni þess. „Einnig minntist formaður á að það hefði verið fröken Kjær að þakka að Fjelag Ísl. hjúkrunarkvenna var stofnað og að hún hafi verið fyrsti formaður þess, þó hún vildi ekki kannast við það.“ Þar er einnig vitnað í erindi baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem hafði þekkt Harriet Kjær lengst af öllum viðstöddum, hátt í 40 ár. „Skýrði frúin frá komu fröken Kjær til landsins, er ekki var allra glæsilegust, þar er allt var þá miklu ófullkomnara en nú er.“ Að þeirri ræðu lokinni bað Harriet viðstadda um að flytja ekki fleiri ræður því hún þyldi ekki meira, henni varð ekki að ósk sinni.

Í aftari röð, lengst til vinstri er Harriet Kjær, þriðja til vinstri er Sigríður Eiríksdóttir. Mynd tekin í Reykjavík 1927.

Minningar um hjúkrunarfræðinga eru gjarnan ítarlegri í tímaritinu en annars staðar, í tilfelli andláts Kristínar Thoroddsen, skólastjóra Hjúkrunarskólans, forstöðukonu Landspítala og einn stofnenda félagsins, voru birtar ítarlegar greinar í tímaritinu, fyrst þegar hún lést árið 1961 og aftur árið 1964 þegar lágmynd af henni var afhjúpuð í Hjúkrunarskóla Íslands.

Lágmyndin af Kristínu Thoroddsen.

Í minningunni um hana er fjallað um för hennar til Danmerkur árið 1914 til að læra hjúkrun, störf hennar við Röntgenstofuna í Reykjavík 1918 til 1920 og svo ferðum hennar til Englands, Chile og New York til að vinna og læra meira. „Það var hennar vani að ganga stofugang ein síns liðs; hún vildi sjá með eigin augum hvernig hverjum og einum liði, öllum gafst kostur á að ræða við hana. Iðulega þokuðu kvíði og áhyggjur fyrir komu hennar, hún var þess umkomin að veita uppörvun og greiða úr ýmsum vanda,“ skrifar Anna Loftsdóttir, þáverandi formaður, um Kristínu. Minningarsjóður Kristínar Thoroddsen er enn starfræktur og er tilgangur sjóðsins að veita þeim hjúkrunarfræðingum viðurkenningu sem skarað hafa fram úr í hjúkrunarnámi og sýnt sérstaka hæfileika til hjúkrunarstarfa.

Ingunn Gísladóttir í Konsó

„Núna upp á síðkastið hef ég dregið út talsvert af tönnum, það er spennandi. Ég hef hingað til verið mjög heppin, en það er oft mjög erfitt – ég er stundum alveg máttlaus eftir að hafa tekið tvo stóra jaxla,“ skrifar Ingunn Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur og kristniboði í Konsó í Eþíópíu, í bréfi til tímaritsins árið 1958. Hún hafði þá verið í þrjú ár við störf í sjúkraskýli sem rekið var af Sambandi íslenzkra kristniboðsfélaga. Á hverjum degi komu á bilinu 40 til 70 sjúklingar.

Ingunn Gísladóttir 1918-1981.

Í bréfinu segir hún jafnframt að hún hafi tekið á móti veiðimanni sem hafði verið bitinn af ljóni. „Það var ljótt að sjá, önnur pípan brotin, taugar, sinar og vöðvar sundur tætt. Ég varð að sauma og setti svo handlegginn í gips.“ Nokkru síðar tók hún á móti manni sem hafði verið skotinn með riffli í brjóstkassann. „Hann er mjög meðtekinn, hefur hita og á erfitt með andardrátt, sennilegt að kúlan hafi farið í gegnum lungað,“ skrifar Ingunn. Næstu dagar fóru í að taka á móti stóru brunaslysi, taka hvítan maðk úr sári auk þess að glíma við rottugang á nóttunni. „Nú er maðurinn sem var skotinn og sá sem varð fyrir ljónsbitinu báðir orðnir góðir og úr allri hættu.“

Ingunn að störfum í Konsó.

Auk bréfanna var Ingunn fengin í viðtal í tímaritinu árið 1967, þar lýsti hún dvölinni. „Fyrsta sjúkraskýlið var kringlóttur kofi með stráþaki, byggður að hætti Konsómanna. Nú hefur nýlega verið reist sjúkrahús með 20 sjúkrarúmum,“ lýsti Ingunn. „Það er alltaf fullt. Oft liggja margir á stéttinni fyrir utan sjúkrahúsið og bíða eftir meðferð.“ Algengasti sjúkdómurinn var malaría, slöngubit voru algeng og sárasótt, fyrir utan farsóttir. „Erfiðar fæðingar eru algengar. Aðstaðan við fæðingarhjálp hefur mikið batnað síðan við fengum fæðingarbekk sem ég keypti fyrir peningagjöf frá Íslandi.“

Ingunn starfaði í alls 13 ár í Konsó og fjallaði tímaritið reglulega um hennar störf. Ingunn kom í ársleyfi aftur til Íslands árið 1960 þar sem hún nýtti tækifærið til að halda fyrirlestra, hún lést 63 ára að aldri árið 1981.

Raddir hjúkrunarnema

Fastur liður í tímaritinu frá sjötta fram á áttunda áratuginn nefndist Raddir hjúkrunarnema. Efnistök voru margvísleg og góð heimild um hvað var á döfinni. „Hafið þið nokkurn tíma heyrt talað um að hjúkrunarnemar væru skemmtanaglaðir? Það er algjör fjarstæða eftir þátttöku á árshátíð HNFÍ að dæma. Þar mættu aðeins fáeinir hausar og sjóðurinn varð að borga tugþúsundir í tap og skemmtinefnd sat með súrt ennið enda húnar að leggja mikla vinnu í undirbúning,“ segir í skýrslu stjórnar nemendafélags Hjúkrunarskóla Íslands frá því í febrúar 1975. „Fleiri tilraunir voru gerðar til þess að ná deyfðinni úr nemunum og tókst betur til bæði með spilakvöld og kvikmyndakvöld.“

Í kjölfarið var svo ákveðið að hópefla hjúkrunarnema og fóru nokkrir á námskeið í slíku sem haldið var á vegum BSRB. „Námskeiðið fór í fyrstu fram í höfuðborginni og síðan var endaspretturinn tekinn í Munaðarnesi. Námskeiðið var byggt upp á hópvinnu og sást þar svart á hvítu hve langt er hægt að ná og skemmtilegra er að vinna saman í hópum en þegar hver pukrast í sínu horni. Árangur þessa námskeiðs hefur komið fram í störfum stjórnar og annars staðar og dreifist vinnan meira nú en áður þegar aðeins örfáir hausar voru vakandi.“

Hjúkrunarnemar á blaðamannafundi, mynd úr Þjóðviljanum 14. október 1977.

Síðari hluta ársins 1977 áttu hjúkrunarnemar í kjaradeilu. „Helstu kröfur hjúkrunarnema voru hækkuð laun fyrir yfirvinnu, 75% af launum hjúkrunarfræðings fyrir 1. árs nema, 85% fyrir 2. árs nema og 100% fyrir 3. árs nema.“ Fjármálaráðuneytið og fulltrúar ríkisspítalanna komu með gagntilboð sem var hafnað. „Þá tókum við til okkar ráða. Þann 16. desember lýstum við yfir yfirvinnubanni, og síðan á félagsfundi 21. desember var ákveðið að hjúkrunarnemar segðu sig úr skóla frá og með 1. janúar 1978,“ segir í greininni. „Þar með var komin harka í málið og samstaðan gífurleg meðal nema. Alls 170 nemar skrifuðu undir úrsagnarlista, málið kynnt fyrir starfsfólki sjúkrahúsanna með dreifibréfi og almenningi gefinn kostur á að heyra málavöxtu í dagblöðunum.“ Tveimur dögum fyrir áramót tókust samningar sem hjúkrunarnemar töldu viðunandi. „Hvaða lærdóm getum við svo dregið af kjarabaráttu okkar? Jú, þann sama og áður: „Sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér“.“

Þankastrikin

Á tíunda áratugnum voru teknir upp tveir fastir liðir í tímaritið, Þankastrik og Hin hliðin, náðu þessir liðir að lifa inn í 21. öldina. Við fyrsta þankastrikið árið 1994 segir að það verði fastur dálkur þar sem höfundur hvers pistils stingi upp á þeim næsta. „Í Þankastriki gefst hjúkrunarfræðingum færi á að tjá sig um ýmislegt sem varðar hjúkrun og er þeim hjartfólgið. Pistlarnir geta fjallað um ákveðin málefni, sögur af kynnum við sjúklinga eða starfsfólk, eitthvað sem hefur orðið höfundum til hugljómunar eða hvaðeina annað sem tengist starfinu og hugmyndafræði þess.“

Það er auðvelt að rekja ferð þankastrikanna með því að fletta í gegnum tölublöðin á timarit.is, er þetta frábrugðið öðru efni að því leyti að þarna skrifuðu hjúkrunarfræðingar sem hefðu líklega annars ekki skrifað í tímaritið. Segja má að þankastrikin hafi náð ákveðnum hápunkti þegar skorað var á þáverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörgu Pálmadóttur hjúkrunarfræðing, sem skrifaði um vináttu. „Í Hjúkrunarskóla Íslands kynntist ég nokkrum kennurum sem ég hef haldið tryggð við æ síðan. En fyrst og fremst skólasystrum, „hollsystrum“ eins og mönnum er tamt að kalla þær og misskilst stundum; (hvílíkur fjöldi hálfsystra),“ skrifaði ráðherra.

Hin hliðin

Þátturinn Hin hliðin voru annars konar viðtöl við hjúkrunarfræðinga þar sem einungis var rætt um þeirra áhugamál eða störf utan við hjúkrun. Árið 1997 var rætt við Kristínu Pálsdóttur, hjúkrunarfræðing og margfaldan Íslandsmeistara í golfi, sagði hún þá að hún yrði vör við fleiri hjúkrunarfræðinga í golfi, nokkrum árum þar á undan hafði verið haldið mót fyrir hjúkrunarfræðinga þar sem fjórir tóku þátt.

Einnig var rætt við Jóhönnu Harðardóttur, hjúkrunarfræðing á Blönduósi, sem var söngvari í hljómsveit. „Það er bara einn sjúklingur sem hefur sagt við mig að honum finnist ekki við hæfi að ég sé að syngja á böllum. Flestum finnst gaman að heyra hverjir voru mættir og hvernig var á ballinu. Reyndar hjálpar þetta mér við að mynda nánari tengsl við fólkið því ég er Reykvíkingur og ekki mjög kunnug hérna,“ sagði Jóhanna.

Breytt um takt

Þorgerður Ragnarsdóttir settist fyrst í ritnefnd Tímarits Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, tímarit sem kom út frá 1984 til 1992. Í aðdraganda sameiningar Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélags Íslands voru tímarit félag anna sameinuð í Tímarit hjúkrunarfræðinga og var Þorgerður ráðin fyrsti ritstjóri sameinaða tímaritsins.

Þorgerður Ragnarsdóttir, ritstjóri 1993-1998.

„Það átti að breyta um takt. Þá voru sameiningarviðræður í gangi og það átti að byrja á þessu. Ritstjórnin lagði upp með að efla enn frekar tímaritið sem fag- og vísindatímarit meira en félagstímarit. Með það lagði ég upp,“ segir Þorgerður.

Fræðigreinarnar komu ekki jafn hratt og ætlað var í fyrstu. „Eftir einhvern tíma var niðurstaðan sú að reyna að gefa út félagslegt tímarit, sem einkenndist af kjaramálum, sögum úr daglegu lífi hjúkrunarfræðinga, meira vikublaðaefni og gefa þá sjaldnar út stærri tímarit með fræðigreinum. Það var þannig í nokkur ár, á meðan ég var þarna, og virkaði vel,“ segir Þorgerður. „Hjúkrunarfræðingar eru svo margir og þetta er svo fjölbreytt flóra af fólki, það voru ekkert allir stilltir inn á það að tímaritið sem þeim þótti vænt um í Hjúkrunarfélaginu yrði uppskrúfað vísindatímarit, það voru ekkert allir þar, það átti við um bæði félögin.“

Tímaritið mikilvægt fyrir sjálfsmynd hjúkrunarfræðinga

Christer Magnusson var ritstjóri tímaritsins frá 2007 til 2015. „Ég hafði unnið við mjög margt áður en ég varð ritstjóri, ég vann við geðhjúkrun, bráðahjúkrun, röntgenhjúkrun og á gjörgæslu en það var mjög margt sem ég vissi ekki hvað hjúkrunarfræðingar gera, ég uppgötvaði það smám saman.“

Christer Magnusson, ritstjóri 2007-2015.

Christer segir að viðtölin sem hann tók við hjúkrunarfræðinga hafi verið mjög gefandi. „Mér fannst það mjög gaman að tala við hjúkrunarfræðinga í ýmsum störfum, skrifa það upp og lýsa því sem þeir voru að gera. Einnig fannst mér mjög gaman að fylgjast með kjarabaráttunni, skrifa greinar um kjaramál, launamál og allt það sem var að gerast við samningaborðið,“ segir hann.

Christer segist vona að Tímarit hjúkrunarfræðinga haldi áfram útgáfu sinni í hundrað ár til viðbótar. „Að minnsta kosti á netinu. Mér finnst reyndar líka mikilvægt að gefa það út í prenti. Við gerðum tilraun, sem mistókst reyndar, að gefa tímaritið út fyrir spjaldtölvur. Það kom ekki vel út, það var ekki rétta leiðin til að gefa tímaritið út þannig að við fórum aftur í að prenta tímaritið á pappír eins og áður. Það er mjög gaman að hafa eitthvað í höndunum til að fletta, það er öðruvísi en að lesa einstaka grein á netinu. Það er þetta samhengi, tímaritið er ein heild á pappír.“

Tímaritið skiptir máli fyrir hjúkrunarfræðinga. „Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd hjúkrunarfræðinga. Það er líka mikilvægt að hafa þessa sögu alla til á prenti. Öll þessi útlit sem hafa verið á tímaritinu í gegnum tíðina, allt sem hefur verið ritað um hjúkrun, það er í raun ótrúlegt að það séu liðin 100 ár frá því útgáfan hófst,“ segir hann.

Þorbjörg Árnadóttir, ritstjóri 1935-1937 og aftur 1947-1950.

Í tölublöðunum sem Christer ritstýrði rifjaði hann reglulega upp atriði úr sögu hjúkrunar á Íslandi, sá áhugi hefur ekki dvínað og vinnur hann nú að ævisögu Þorbjargar Árnadóttur, hjúkrunarfræðings og rithöfundar, sem ritstýrði tímaritinu í nokkrum áföngum fyrir miðja síðustu öld. „Það var í raun hennar vegna sem ég hætti sem ritstjóri, það var þegar ég uppgötvaði hvað það voru til margar heimildir um hana. Hún var mjög áhugaverð kona og ég hlakka til að gera henni góð skil,“ segir Christer að endingu.

Sigríður Eiríksdóttir, formaður félagsins frá 1924 til 1960.

Stutt spjall við Sigríði Eiríksdóttur

Viðtal við Sigríði Eiríksdóttur í tilefni af 50 ára afmæli tímaritsins, gefið út í 2. tbl. 1975. Merkt G.Í.Í. og Ingibjörgu Árnadóttur ritstjóra.

Á fundi hjúkrunarkvenna í apríl 1925 var útgáfa blaðsins ákveðin og segir í formála fyrir fyrsta tölublaðinu að markmið blaðsins sé að halda áhugamálum stéttarinnar vakandi, efla þau og útbreiða.

Í stórt var ráðist af fámennum en hugdjörfum hópi, þar sem á árinu 1925 var aðeins 21 hjúkrunarkona í félaginu en með störfuðu 12 aukafélagar.

Sigríður hefur, eins og kunnugt er, unnið ötullega að hjúkrunarog heilbrigðismálum allt frá því hún kom heim frá námi á þriðja tug aldarinnar og var hún m.a. formaður Hjúkrunarfélags Íslands á árunum 1924-1960 og með aðra höndina við blaðið allan þann tíma. Þegar flett er árgöngum blaðsins dylst engum að Sigríður á þar mikinn fjölda greina.

Við spurðum Sigríði, hver hafi verið aðdragandinn að því að hjúkrunarkonur réðust í útgáfu félagsblaðs.

„Á þessum árum var hjúkrunarstarfið á byrjunar- og mótunarstigi hér á landi og var okkur því brýn nauðsyn á að fá boðbera til að halda okkar málum vakandi og til að ná til allra í stéttinni. Nokkuð var um útgáfu fagrita, t.d. minnist ég þess að iðnaðarmenn, læknar, verkfræðingar og, að mig minnir, ljósmæður hafi gefið út fagrit fyrir þennan tíma. Í fyrsta tölublaði er drepið á að framtíð blaðsins sé undir hjúkrunarkonum sjálfum komin og er þar að finna setninguna: Við eigum að skrifa það allar.“

Var söfnun efnis ekki erfið?

„Eins og að líkum lætur vildi það brenna við að sömu konurnar skrifuðu mest í blaðið. Blaðið hefur að sjálfsögðu verið upp og ofan að gæðum en einna mesta deyfð finnst mér ríkja yfir því um 1960.“

Hvernig var hjúkrunarkonum fjárhagslega kleift að ráðast í blaðaútgáfu?

„Í fyrstu fjölgaði hægt í stéttinni og auðvitað hefði ekki verið hægt að ráðast í þetta „stórfyrirtæki“, ef ekki hefði komið til ókeypis vinna okkar sem að blaðinu stóðu. Kostnaður var greiddur úr félagssjóði og blöðin send heim til allra félagskvenna. Lengi vel var blaðið selt í lausasölu en seldist alla tíð lítið þannig.

Á fyrstu árunum var aldrei unnt að fá auglýsingar, því að höft og kreppuráðstafanir orsökuðu það að kaupmenn sögðust ekkert hafa að selja og þar af leiðandi ekkert að auglýsa. Það er ekki fyrr en eftir 1935 að auglýsingar fara að birtast að einhverju ráði í blaðinu.“

Hvernig unnu þið blaðið fyrstu árin?

„Blaðið var sett upp og vélritað heima hjá mér fyrstu árin. Var þá borðstofuborðið „kontorinn“ þar sem allt flaut af blöðum og bókum þar til bunkað var upp á kvöldin, en þetta þótti heldur ósjarmerandi og óvenjulegt á þessum tíma. Fjölritun á blaðinu fengum við hjá Pétri Guðmundssyni, útgáfumanni, sem tók okkur sérlega vel.

Ég vil geta þess að bæjarbúar voru okkur hjúkrunarkonum afar góðviljaðir, enda ófá sporin okkar í bæjarhjúkrun þar sem þörfin var mikil á aðstoð og aðhlynningu.

Blaðið var fjölritað fram til ársins 1936, eða 42 tölublöð, en þá var ákveðið að ráðast í að láta prenta það og sýndi sig að blaðið stóð undir sínum kostnaði að ári liðnu, enda þá orðið tiltölulega auðvelt að fá auglýsingar.“

Hvað var helst skrifað um fyrstu árin?

„Um launakjör var mikið rætt og ritað, enda laun okkar mjög léleg auk þess sem ætlast var til að hjúkrunarkonan væri alltaf reiðubúin til vinnu, hvenær og hvar sem var. Ef við sáumst á götu „privatklæddar“ mátti oft heyra: „Nei sko, hjúkrunarkonan á frí í dag.“ Um lífeyrissjóð var talsvert mikið ritað, en honum hafði þá þegar verið komið á fyrir danskar hjúkrunarkonur.

Einnig þýddum við erindi úr erlendum tímaritum auk frétta af merkisatburðum á sviði hjúkrunar. Nokkrar greinar birtust frá hjúkrunarkonum erlendis þar sem þær lýsa starfi sínu á hinum ýmsu stofnunum.

Allar skýrslur Samvinnu hjúkrunarkvenna á Norðurlöndum er að finna í blaðinu. Auglýsingar um lausar stöður og stöðuveitingar birtum við en einnig var getið um utanferðir og heimkomur íslenskra hjúkrunarkvenna en á þessum árum var ekki hægt að læra hjúkrun til fulls hér á landi.

Með tilkomu Landspítala og síðan Hjúkrunarskóla Íslands færðist námið hingað heim og tekur þá að fjölga hraðar í stéttinni. Ég get þess til gamans að þegar Hjúkrunarskóli Íslands tók inn nemendur, 10 stúlkur, annað eða þriðja árið sem hann starfaði, kallaði einn af þremur þáverandi prófessorum á Landspítalanum á mig og innti mig eftir því hvort við ætluðum strax að fara að skapa atvinnuleysi í stéttinni.

Að lokum, Sigríður. Hvernig finnst þér Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands vera í dag?

„Ég hef verið mjög ánægð með blaðið síðustu árin. Mér finnst það bæði fróðlegt og vel úr garði gert í alla staði.“

Ritstjórn blaðsins árið 1975 leitaði heimilda um útgáfu elstu tímarita er fjallað hafa um heilbrigðismál á Íslandi og komst að því að elsta tímaritið er Eir – Tímarit handa alþýðu um heilbrigðismál, gefið út á árunum 1899-1900. Læknablaðið, hóf útgáfu 1915. Ljósmæðrablaðið, gefið út á árunum 1922-1975. Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands, hóf útgáfu 1925.