Kæru hjúkrunarfræðingar.
Til stendur að hagræða í rekstri ríkisins á næsta ári, þar af á að lækka launakostnað opinberra stofnana um 5 milljarða króna. Það hljómar illa í eyrum hjúkrunarfræðinga sem eru alltof vanir að heyra skilaboð um að hlaupa hraðar og nota færri hendur. Því er hins vegar lofað af hálfu yfirvalda að vörður verði staðinn um framlínustarfsemi á borð við heilbrigðisþjónustu.
Þessum aðgerðum er ætlað að ná jafnvægi í efnahagsmálum, verðbólgan og stýrivaxtahækkanir hafa bitnað á mörgum hjúkrunarfræðingum sem fá nú þegar ekki greidd laun í samræmi við álag og ábyrgð. Þegar þessum aðgerðum lýkur er kjörið tækifæri til að fjárfesta í því sem skiptir þjóðina alla máli og er það, að mínu mati, störf hjúkrunarfræðinga.
Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Prósent gerði í sumar telur mikill meirihluti þjóðarinnar að heilbrigðis- og öldrunarþjónusta sé það stefnumál sem mikilvægast sé að stjórnvöld leggi áherslu á. 60% svöruðu því, þar á eftir komu efnahagsmál, verðbólgan og húsnæðismál. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá því í vor þar sem tæplega 67 prósent landsmanna telja að mest þörf sé á umbótum í heilbrigðiskerfinu. Þetta sýnir svart á hvítu hversu mikilvægt okkar starf er í hugum þjóðarinnar.
Mönnun og öryggi
Í ágúst sendi Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) hvatningu til ríkisstjórna um allan heim um að fjárfesta í fjölgun hjúkrunarfræðinga og halda þeim í störfum innan heilbrigðiskerfisins. Einnig að miða áætlanir sínar við að heilbrigðisstarfsfólk geti mætt þeim þörfum sem kallað er eftir. Næg mönnun og öryggi heilbrigðisstarfsfólks er forsenda fyrir því að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga.
Mönnun og öryggi er sérssvið Peter Griffiths sem er einn aðalfyrirlesara á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica í lok september. Það verður mjög áhugavert að hlusta á það sem hann hefur að segja og hvet ég ykkur til að koma og hlusta á hann.
Það verður fleira á dagskrá félagsins í haust og vetur. Í nóvemberbyrjun verður aftur haldin kjararáðstefna þar sem trúnaðarmenn hjúkrunarfræðinga koma saman og m.a. leggja drög að kröfugerð fyrir næstu kjarasamninga.
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að samkomulagi á grundvelli jöfnunar launa á milli markaða. Þó hægt hafi gengið í vinnunni og einungis lítil skref tekin í þessu stóra verkefni, þá hafa þau verið mikilvæg. Þessi mikilvægu upphafsskref skipta miklu mál, ekki síst til að kortleggja einstaka hópa og bera saman laun hjúkrunarfræðinga við aðrar stéttir.
Háskólanám í hálfa öld
Í haust er liðin hálf öld frá því nám í hjúkrunarfræði hófst á háskólastigi hér á landi. Háskólar eru rétti staðurinn fyrir nám í okkar fagi, um það er ekki deilt í dag. Það var hins vegar ekkert sjálfgefið á sínum tíma. Það þurfti að berjast fyrir þessum breytingum og koma í veg fyrir þær yrðu afturkallaðar. Þær Vilborg Ingólfsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir, sem voru í fjórtán manna hópnum sem hóf fyrstur nám haustið 1973, munu fara vel yfir þetta í erindi á Hjúkrun 2023. Til að minnast þessara tímamóta verður Háskóli Íslands einnig með viðburð í hátíðarsal skólans föstudaginn 29. september kl. 15:30 og er það að lokinni ráðstefnunni Hjúkrun 2023.
Ég hlakka til að hitta ykkur á Hjúkrun 2023. Ég minni á að hægt er að sækja um styrk fyrir ráðstefnunni í starfsmenntunarsjóð félagsins. Á ráðstefnunni verður boðið upp á fjölbreytt, fróðleg og áhugaverð erindi enda hjúkrunarfræðingar iðnir að sinna rannsóknum og fræðistörfum.
Sjáumst hress og kát öll sömul á Nordica í september!