Fara á efnissvæði
Frétt

Fjárlagafrumvarp endurspeglar ekki stefnu í mönnun heilbrigðisþjónustunnar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2026 endurspeglar ekki stefnu stjórnvalda í mönnun heilbrigðisþjónustunnar.

Ríkisstjórnin boðar aðhald í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026. Íbúum á Íslandi hefur fjölgað um rúmlega 20% frá árinu 2015, á sama tíma hefur einstaklingum 65 ára og eldri fjölgað um 40%. Tæpur helmingur heilbrigðisútgjalda kemur til vegna aldraðra einstaklinga. Þessi þróun hefur ekki endurspeglast í fyrri fjárlagafrumvörpum og gerir það heldur ekki fyrir árið 2026.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2026 boðar sérstakar aðhaldsaðgerðir, sjúkrahúsin eiga að spara tæpa 2 milljarða króna og heilsugæslan 1,1 milljarð en þetta eru jú þær stofnanir sem að sinna þessum ört stækkandi hópi sem þarf mikla heilbrigðisþjónustu. Hjúkrunarrýmum á að fjölga sem eru góðar fréttir en ef vel á að vera þarf mun víðtækari aðgerðir en eingöngu fjölgun hjúkrunarrýma.

Fram kom í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í júlí síðastliðnum að skortur á mönnun væri stærsta áskorun heilbrigðisþjónustunnar. Þetta kemur einnig fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem líka var birt í júlí síðastliðnum. Í þeirri skýrslu var dregin fram slæm staða innan heilbrigðiskerfisins alls hvað varðar mönnun heilbrigðisstarfsfólks.

Í mönnunarstefnu í heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 er sérstaklega dregið fram að hlutfall aldraðra vex hratt og sjúkdómsbyrði sé að aukast. Það kallar á ríkari kröfur um sí-og endurmenntun. Við vitum að nú þegar eiga heilbrigðisstofnanir erfitt með að fjármagna starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga en það er grundvöllur gæða og öryggis í hjúkrunarþjónustu. Það eru fleiri þættir sem þurfa að endurspeglast í fjárlögum fyrir árið 2026, en gera það því miður ekki.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga mun senda inn umsögn til Alþingis um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2026.