Florence Nightingale orðan er eitt æðsta heiðursmerki hjúkrunarfræðinga. Orðan hefur verið veitt af Alþjóðlega Rauða krossinum frá árinu 1912. Orðan er veitt fyrir framúrskarandi framlag til heilbrigðismála eða menntunar í hjúkrunarfræði. Hún er einnig veitt fyrir framúrskarandi hugrekki og skyldurækni við þá sem hafa lent í náttúruhamförum eða vopnuðum átökum. Fimm íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa fengið orðuna.
Sigríður Eiríksdóttir – 1949
Sigríður Eiríksdóttir lauk hjúkrunarnámi í Danmörku árið 1921, hún stundaði svo framhaldsnám í Austurríki. Hún starfaði hjá Hjúkrunarfélaginu Líkn frá 1922 til 1926, hún varð síðar formaður Líknar frá 1931 til 1956 þegar Heilsuverndarstöð Reykjavíkur tók við hlutverki félagsins.
Sigríður var formaður Hjúkrunarfélags Íslands frá 1924 til 1960, eða samfleytt í 36 ár. Hún sat í ritstjórn tímarits félagsins frá upphafi og skrifaði fjölda greina um öll baráttumál hjúkrunarfræðinga, fyrstu árin var tímaritið unnið á heimili hennar. Hún flutti mörg útvarpserindi um heilbrigðismál milli 1934 til 1955.
Sigríður var virk í ýmsu alþjóðastarfi, þar á meðal sat hún í stjórn Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum í áraraðir og var formaður bandalagsins milli 1939 og 1945. Hún var sæmd fálkaorðu árið 1965.
Sigríður Eiríksdóttir lést árið 1986.
„Þrátt fyrir miklar annir í starfi sínu almennt og fyrir félag sitt sérstaklega, hefur frú Sigríður jafnan verið vakandi í ýmsum þeim málum sem almenning varða, eigi síst þeim, sem á einhvern hátt varða líf og heilsu almennings, almennan þrifnað og menningarbrag. Hún er jafnan ódeig við að andmæla ósómanum, í hverri mynd sem hann birtist, og tekur þá engum vettlingatökum á málefnunum, hver sem á í hlut, enda hefur hún ósjaldan orðið fyrir aðkasti fyrir sköruleg afskipti sín af ýmsum málum, svo sem títt er um þá, sem sjá og hugsa lengra en fjöldinn.“
- Bjarney Samúelsdóttir í Hjúkrunarkvennablaðinu árið 1944 í tilefni af 20 ára formennsku Sigríðar í Félagi íslenskra hjúkrunarkvennaSigríður Bachmann – 1957
Sigríður Bachmann lauk hjúkrunarnámi við University College Hospital School of Nursing í Lundúnum árið 1927, hún stundaði svo framhaldsnám í hjúkrunarkennslu við Bedford College for Women. starfaði lengi hjá Rauða krossinum, ferðaðist hún um landið og kenndi hjálp í viðlögum. Hún var skólastjóri Hjúkrunarkvennaskóla Íslands frá 1949 til 1954 þegar hún var ráðin forstöðukona Landspítala þar sem hún starfaði til 1968. Hún sat lengi í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarkvenna, hún sat í einnig í stjórn Rauða krossins og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Hún var sæmd fálkaorðu árið 1958 fyrir hjúkrunar- og kennslustörf. Sigríður Bachmann lést árið 1990.
Bjarney Samúelsdóttir – 1977
Bjarney Samúelsdóttir lauk hjúkrunarnámi í Kaupmannahöfn árið 1919, hún fór í framhaldsnám til Bretlands árið 1928. Hún var sjötti Íslendingurinn sem kláraði nám í hjúkrunarfræði. Hún starfaði hjá Hjúkrunarfélagi Reykjavíkur frá 1919 til 1923, ungbarnavernd hjá Hjúkrunarfélaginu Líkn til 1937 og síðan við berklavarnir til 1964.
Hún starfaði lengi fyrir Hjúkrunarfélag Íslands, lengst sem gjaldkeri á árunum 1920 til 1943.
Hún var sæmd fálkaorðu árið 1976 fyrir líknar- og hjúkrunarstörf. Bjarney Samúelsdóttir lést árið 1992.
„Ég var bæjarhjúkrunarkona í Reykjavík árin 1919 til 1923. Þá var ástandið almennt bágborið, atvinnuleysi og húsnæðisleysi. Ég minnist þess að oft sátu menn að vetri tímunum saman úti á Skólavörðuholti og biðu eftir vinnu sem fékkst kannski þriðja hvern dag. Matarskortur var víða, húsnæðið þröngt og kalt.
Þegar upp komu farsóttir var fólki komið fyrir í Franska spítalanum, en þessar farsóttir komu oft verr niður hér en í Danmörku. Fólk varð miklu veikara og nægir þar að nefna spönsku veikina.
Mest var berklaveikin um 1920 en síðan komu lyfin. Fólk kom á stöðina og fékk sprautu en ef það reyndist vera með smit var það sent á Vífilsstaði. Það voru oft erfið spor að þurfa að fara aftur á sjúkrahús. Oft þurftum við að fara heim til fólks og sækja það í skoðun.
Þá var holdsveikin ekki síður ógnvaldur á sínum tíma þótt aldrei jafn algeng og berklarnir, holdsveikisjúklingar voru sendir á Laugarnesspítalann.
Reyndar breyttust allar aðstæður til betri vegar þegar elliheimili komu til sögunnar og starfsemi hófst á Landspítalanum árið 1930. En mestu umskiptin urðu í þessum málum á stríðssárunum. Þá var ekki lengur þrúgandi atvinnuleysi og fólk hafði meiri peninga á milli handanna. Áður voru ekki önnur ráð við lungnabólgu en digitalisdropar og heitir bakstrar sem strengdir voru yfir brjóstið. Fólki fannst því létta við það.“
- Bjarney Samúelsdóttir í viðtali við Maríu Pétursdóttur, birt í Morgunblaðinu 1987. Þá var Bjarney 94 ára.Æskuminningar Vigdísar Finnbogadóttur
„Þær voru blómakonur og náttúruunnendur, fóru í langar gönguferðir um landið og ætíð til berja. Og mikið lifandis ósköp töluðu þær og lögðu á ráðin á fundum sem haldnir voru á heimilunum til skiptis þar sem framborið var sætt kaffi og með því í sparibollunum á útsaumuðum dúkum. Þær töluðu um hvernig ætti að skipuleggja betur störfin, hvernig ætti að kenna fólki hreinlæti, hvernig losna ætti við spýtubakka sem þóttu sjálfsagðir í opinberum byggingum, hve nauðsynlegt væri að útvega fleiri hjúkrunarkonur í heimahjúkrunina.
Þegar hjúkrunarfélagið var annars vegar þá voru það launamálin, BSRB-þingin, lífeyrissjóðurinn, sumarhúsið uppi hjá Reykjum, heimilissjóðurinn til að skapa aðstöðu fyrir skrifstofu Félags íslenskra hjúkrunarkvenna. Eða þá allur undirbúningurinn fyrir norrænu hjúkrunarþingin sem hér voru haldin. Milli funda var svo endalaust skrafað í símann. Er það nokkuð furða þótt vinkona Bjarneyjar, Sigríður Eiríksdóttir, væri okkar megin kölluð „mamma símalanga“. En símtölin hennar voru reyndar við fleiri en Bjarneyju, þótt enn í dag muni ég símanúmerið hennar (13016!), af því ég var svo oft látin hringja með skilaboð.“
- Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, skrifaði um Sigríði Eiríksdóttur móður sína, Sigríði Bachmann og Bjarneyju Samúelsdóttur, í Hjúkrun: Tímarit Hjúkunarfélags Íslands árið 1992.María Pétursdóttir – 1989
María Anna Pétursdóttir lauk prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1943 og stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum og Kanada til 1945. Að loknu námi starfaði hún við rannsóknir á berklum og sem kennari við Hjúkrunarskólann. Hún sat í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands frá 1945 og var formaður félagsins frá 1964 til 1974. María starfaði lengi fyrir Rauða krossinn og sat í stjórn hans í meira en áratug. Hún var fyrsti námsbrautarstjóri í hjúkrun við Háskóla Íslands og skólastjóri Nýja hjúkrunarskólans frá 1972. María var sæmd fálkaorðu árið 1973 og stórriddarakross árið 1988. María Pétursdóttir lést árið 2003.
Guðbjörg Sveinsdóttir - 2023
Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur hefur tekið þátt í starfi á átaka- og hamfarasvæðum með áherslu á geðheilbrigði. Hún var hluti af áfallateymi Rauða krossins og hefur hún sinnt sendifulltrúastörfum í Íran, Írak, Palestínu og Indónesíu.
Guðbjörg hefur á ferli sínum verið ötull málsvari fólks með geðraskanir og unnið að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur hún leitt stofnun úrræða sem bæta þjónustu fyrir fólk með geðraskanir bæði hér á landi og erlendis. Hún var leiðtogi í Vin, sem er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu rak í nær 30 ár, þar til velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstrinum. Góður árangur hennar þar leiddi til þess að önnur álíka dagsetur voru stofnuð á þremur öðrum stöðum á Íslandi og í Belarús þar sem Guðbjörg sá um þjálfun starfsfólks úrræðisins.
Eftir að hún hætti störfum fyrir Rauða krossinn gerðist hún svo sjálfboðaliði í áfallateymi Rauða krossins, sem veitir sálrænan stuðning eftir hamfarir, slys og aðra erfiða atburði.
Hér má lesa ítarlegt viðtal við Guðbjörgu í Tímariti hjúkrunarfræðinga: