Fara á efnissvæði
Viðtal

Sæmd Florence Nightingale-orðunni

Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur var nýlega sæmd Florence Nightingale-orðunni sem er æðsti heiður sem hjúkrunarfræðingi getur hlotnast á alþjóðavísu.

Viðtal: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og úr einkasafni

Guðbjörg hefur í áratugi verið öflugur málsvari fólks með geðraskanir og beitt sér fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu. Hún segist upphaflega hafa heillast af geðhjúkrun þegar hún var nemi og vann í tvo mánuði á geðdeild sem þá var staðsett í risinu á Kleppsspítala. Þar kviknaði áhuginn en seinna fór hún til Noregs og lærði geðhjúkrun. Guðbjörg var í mörg ár forstöðumaður í Vin, athvarfi fyrir geðfatlaða, hún tók þátt í að setja á laggirnar samfélagsgeðteymi og var í mörg ár sendifulltrúi Rauða krossins þar sem hún fór til fjarlægra landa eins og Indónesíu, Palestínu, Írak, Íran og Belarus. Í þessum ferðum sinnti hún verkefnum við framandi og oft erfiðar aðstæður, til að mynda eftir stóra jarðskjálftann í Íran á öðrum degi jóla árið 2004. Eftir að Guðbjörg lét af störfum fyrir Rauða krossinn gerðist hún sjálfboðaliði í áfallateymi hans en það teymi veitir sálrænan stuðning eftir hamfarir, slys og erfiða atburði. Florence Nightingale-orða og sú fyrsta sem íslenskur hjúkrunarfræðingur fær í rúm þrjátíu ár er heldur betur tilefni til viðtals. Við hittumst í Sigríðarstofu og spjölluðum yfir rjúkandi kaffi.

Guðbjörg Sveinsdóttir er fædd árið 1954 og verður því sjötug á næsta ári. Hún útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands 1978 og hefur lengst af starfað í geðinu. „Fyrst eftir útskrift fór ég að vinna á skurðstofu á Borgarspítalanum í Fossvogi. Ég starfaði þar í eitt ár og fór þá að vinna á deild 9 sem var í risinu á Kleppi. Ég hafði nefnilega, meðan ég var í náminu, verið nemi á þeirri deild sem þá hét samfélagslækningadeild. Þetta var mjög framsækin deild og ég heillaðist mjög af hugmyndafræðinni og meðferðinni þar. Það var því úr að þegar ég var búin að vera í eitt ár á skurðstofunni fór ég að vinna á deildinni sem hafði heillað mig á meðan ég var í náminu. Ári seinna flutti deildin og deild 32C var opnuð.

Eftir um það bil tvö ár þar fór ég svo að þreifa fyrir mér, ég prófaði að vinna á augnlækningadeild, eignaðist börnin mín, fór til Noregs og lærði þar geðhjúkrun og fór svo aftur að starfa á 32C í um fjögur ár eftir heimkonu,“ segir Guðbjörg sem á þessum tímapunkti var sannfærð um hvar áhuginn lá. „Ég fór svo að vinna í Vin, athvarfi fyrir geðfatlaða, sem var fyrsta úrræði fyrir þann hóp í samfélaginu. Ég tók þátt í að efla og styrkja starfið sem þar var unnið og eftir 13 ár sem forstöðumaður fór ég aftur að vinna á göngudeildinni á Kleppi. Í janúar árið 2010 tók ég þátt í að setja á laggirnar samfélagsgeðteymi þar sem ég var teymisstjóri en tíu árum síðar var það teymi svo innlimað í göngudeildina á Kleppi.“

Ákveðin kreppa í faginu

Hvernig er staðan í geðheilbrigðiskerfinu að þínu mati?

„Það er talað um manneklu en ég held að það vanti ekki endilega fólk, það þarf kannski bara að vinna öðruvísi, vera meiri samvinna og teymisvinna. Stokka kerfið upp og fara að vinna með þarfir þeirra sem mest þurfa á þjónustunni að halda að leiðarljósi, bæði inni á geðsviði og í þeim teymum sem eru innan heilsugæslunnar,“ svarar hún og bætir við að hún hafi ákveðnar áhyggjur varðandi fagið:

„Mér finnst vera kreppa í faginu, kreppa í geðhjúkrun og kreppa í hjúkrun að vissu leyti. Ég hef verið viðloðandi geðheilbrigðismálin síðan 1979 og ég verð að segja að mér finnst hlutur geðhjúkrunar vera of lítill og geðhjúkrun vera komin á stað sem ég er ekki sátt við í raun og veru. Ég lærð hjúkrun í Noregi og Maria Vånar Ermansen, sem var brautryðjandi í geðhjúkrun í Noregi þar sem ég lærði, var spurð að því þegar hún var orðin níræð hvað hefði breyst mest í geðheilbrigðismálum á öllum þeim árum sem voru liðin frá því að hún var að byrja. Hún svaraði því þannig að stærðin á lyfjaskápunum væri stærsta breytingin. Ég finnst það sama, þegar ég var að byrja var einn lyfjaskápur á deildinni en í dag er heilt lyfjaherbergi. Þetta sýnir svo glöggt hvað það er mikil lyfjaáhersla í geðheilbrigðismálum. Þegar ég var að byrja í geðinu var mikil teymisvinna og mikið jafnræði og hlutur hjúkrunarfræðinga var mjög stór; þeir ráku deildirnar, skipulögðu starfsemina og voru í lykilhlutverki. Ég veit ekki hvað gerðist en mér finnst hjúkrunarfræðingar í dag vera mjög þögul stétt, hvort sem það er á hvíta spítalanum eða geðdeildinni. Ég held að þessi mikla lyfjaáhersla og læknisfræðilegi fókus spili þar stórt hlutverk. Aðrar stéttir hafa tekið yfir hlutverk sem áður voru í höndum hjúkrunarfræðinga,“ segir Guðbjörg sem finnst að hlutur hjúkrunarfræðinga sé vægari en áður ef svo má að orði komast.

„Þeirra rödd er ekki eins sterk og hún á að vera að mínu mati. Áherslan virðist vera sú að sálfræðingar og aðrir sinni meðferð frekar en hjúkrunarfræðingar sem eru þá frekar í því hlutverki að gefa lyf og sjá um lyfjamál. Þessi þróun finnst mér ekki góð og það er mikilvægt að ræða þetta og efla frekar sjálfstraust og sjálfsmynd hjúkrunarfræðinga. Mér finnst mjög jákvætt að nú sé hægt að fara í meistaranám í geðhjúkrun en að mínu mati þurfum við hjúkurnarfræðingar að staðsetja okkur betur ætlum við að vera talsmenn skjólstæðinga okkar. Þetta er umræða sem þarf að taka en mér finnst vanta framsækið afl innan stéttarinnar og gagnrýna umræðu og ekki síst í geðheilbrigðismálum.“

Jákvætt að raddir sjúklinga heyrast meira

Hvaðan kemur þessi brennandi áhugi þinn á geðheilbrigðismálum?

„Eins og fram hefur komið var ég hjúkrunarnemi á Kleppi árið 1977 á samfélagslækningadeild sem var mjög skemmtileg deild því þar var allt mjög lýðræðislegt og framsækið. Sú jákvæða þróun sem hefur átt sér stað í geðheilbrigðismálum er að skjólstæðingar búa ekki lengur inni á geðdeildum eins og áður en á móti kemur að það vantar meiri stuðning úti í samfélaginu. Þetta er samfélagslegt, hugmyndafræðilegt og efnhagslegt mál en það er jákvæð þróun að raddir sjúklinga eru farnar að heyrast meira um batahugmyndafræði, valdeflingu og þátttöku fólks með geðrænan vanda og fíknivanda í meðferð og í umræðunni um geðmál,“ segir hún.

Tók sinn toll að vera við störf í stríðshrjáðu landi

Guðbjörg hefur starfað fyrir Rauða krossinn í Írak, Íran, Indónesíu, Palestínu og Bangladesh. „Fyrsta ferðin mín var til Kósóvó 1999 fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Það var sex mánaða ferð sem ég ákvað að fara í af einskærri ævintýraþrá og til að fá tilbreytingu í lífið. Ég vissi í raun ekkert hverju ég átti von á, það hafði verið borgarastríð í Kósóvó og NATÓ byrjaði svo að sprengja í Serbíu þannig að við þurftum að færa okkur til Makedóníu og vera þar í nokkra mánuði.“

Í Banda Aceh eftir flóðbylgjuna árið 1984.

Guðbjörg var í heilsugæsluteymi þarna úti og starf hennar fólst í streitustjórnun hjá starfsfólki. „Þetta voru mest hermenn í borgaraklæðum sem höfðu allt önnur gildi en ég og þarna kynntist ég líka vinnubrögðum sem ég var ekki vön.“ Hún segir að þessi lífsreynsla hafi víkkaði sjóndeildarhringinn og gefið sér aðra sýn á lífið. „Ég varð meðvitaðri um hvað ég er lánsöm að búa í friðsælu landi.“ Guðbjörg segir að það hafi tekið sinn toll af hennar andlegu heilsu að starfa í streituástandi í stríðshrjáðu landi og að hún hafi þurft aðstoð fagfólks til að vinna úr því eftir heimkomuna. Hún trúir ekki að geðlyf leysi allan vanda og kýs aðrar aðferðir. „Ég hef verið í handleiðslu og hjá sálfræðingi og svo finnst mér gera mér gott að fara í jóga og slökun.“ Handleiðslu þarf að stórefla í hjúkrun, það er stór þáttur til stuðnings faglegri þróun.

Jarðskjálfti og stríð breytti viðhorfum

Er eitthvert atvik sem situr í þér og breytti þér?

„Ég fór til Miðausturlanda fyrir Rauða krossinn sem var mikið ævintýri, fyrst fór ég til Íran þar sem ég upplifði framandi menningu og þurfti að vera með slæðu.“ Á öðrum degi jóla árið 2004 varð stór jarðskjálfti í Bam í Íran þar sem um 35.000 manns létu lífið og fór Guðbjörg þangað á vegum Rauða krossins: „Við flugum til Teheran hópur af fagfólki frá Vesturlöndum og fórum þaðan til Bam þar sem eyðileggingin eftir skjálftann var gríðarleg. Þegar við komum á staðinn og ætluðum að fara að gera mat á sálfélagslegum þörfum og öðru kom í ljós að sú vinna var farin í gang. Íranski Rauði hálfmáninn var mættur til Bam með sitt áfallateymi en þeir voru með heila áfalladeild og því framar okkur hvað það varðar. Við fagfólkið sem var mætt frá Vesturlöndum göptum bara og gátum lært heilmikið af þessu áfallateymi. Þetta var eiginlega svolítið gott á okkur,“ segir Guðbjörg brosandi og bætir við:

„Þetta teymi beitti aðferðum til að aðlaga þær að þeirra menningu og voru ótrúlega fær í að láta hlutina gerast; setja upp skóla fyrir börnin og koma daglegri rútínu í gang sem er svo mikilvægt til að hægt væri að fara að vinna úr áfallinu sem jarðskjálftinn orsakaði og afleiðingum hans. Þetta teymi þekkti menningarheiminn og þarfirnar miklu betur en við sem komum frá Vesturlöndunum. Til dæmis eru þarfir kvenna allt aðrar þarna en víða annars staðar vegna þess að kynin eru meira aðskilin í þessum menningarheimi. Konurnar þurftu að geta bakað brauðin sín, salernin þurftu að vera á ákveðnum stöðum og nálægt ákveðnum rýmum upp á öryggi þeirra. Það þurfti líka að hugsa hjálparstarfið út frá trúarlegum atriðum, sjá til þess að fólk gæti iðkað sína trú og annað. Það að verða vitni að vinnu þessa áfallateymis hristi upp í okkar hugmyndum og hafði mikil áhrif á mig, þetta var mikil opinberun og sýndi hvað vanþekking okkar á þeirra störfum og hæfni var mikil. Okkar hópur fór í að aðstoða þetta flotta teymi og lærdómurinn var gríðarlegur,“ segir Guðbjörg auðmjúk.

Guðbjörg í Bam í Íran.

Næsti staður sem hún fór til var Írak. „Þar var stríð og upplifunin því allt önnur. Ég bjó að því að hafa kynnst þessum menningarheimi sem gerði mig öruggari. Ég var þar í þrjá mánuði og sú upplifun var erfið, ég hefði samt ekki viljað sleppa þessari ferð. Mitt hlutverk þarna var að meta geðheilbrigðiskerfið en ég komst ekki á marga staði til að sinna þeirri vinnu því það var svo oft lokað vegna hættuástands.“

Varstu einhvern tímann í lífshættu þarna?

„Já, þegar ég var að ferðast. Þarna voru jarðsprengjur um allt og líka bílasprengjur. Alþjóðlegi Rauði krossinn er samt með mjög skilvirka öryggisþjónustu og lokaði svæðum sem töldust hættusvæði. Ég man samt þegar ég var að keyra í Bagdad, engin götuljós virkuðu og maður þurfti bara að taka sénsinn.“ Guðbjörg segist hafa getað sofið þegar hún dvaldi á átakasvæðinu en hún hafi fundið fyrir áfallaeinkennum eftir að hún kom heim. „Ég var viðbrigðin og ég keyrði mjög hratt, á ólöglegum hraða og upplifið ýmis einkenni eftir heimkomuna.“ Hún segist þó ekki hafa viljað sleppa þessari ferð. Ég kynntist einstaklega góðu fólki og lærði svo mikið um aðra menningu og trú. Það víkkar sjóndeildarhringinn að fara svona, maður gerir sér líka grein fyrir því hvað lífið er hverfult og eins hvað það er ofboðsleg seigla til; hvað fólk getur hjálpað hvert öðru þrátt fyrir mikil áföll og hræðilega atburði. Seiglan og vonin eru sterk öfl og það er magnað hvað við mannfólkið erum lík hvort sem við erum hér eða þar,“ segir hún einlæg og bætir við að vonin sé líklega sterkasta vopnið en að fólk þurfi að finna nánd og kærleika til að ná að vinna sig út úr áföllum sem þessum.

Guðbjörg í flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess.

Skelfileg lífreynsla í flóttamannabúðun í Bangladesh

Guðbjörg fór til Bangladesh árið 2018. „Þar þurfti ég að búa í tjaldi í mánuð og aðstæður þar voru erfiðar. Ég fór út milli jóla og nýárs, Róhingjar voru að flýja frá Myanmar og ég var í nágrenni við risastórar flóttamannbúðir þar sem Rauði krossinn hafði sett upp spítala í tjöldum, skurðstofurnar og allt saman var í tjöldum og aðstæður oft krefjandi. Ég var þarna í sálfélagslegri aðstoð, ásamt norskum sálfræðingi. Við vorum með aðstöðu í einu tjaldanna og gátum tekið viðtöl við skjólstæðinga þar og bak við það var aðstaða til viðtala í meira næði. Sjálfboðaliðar úr hópi Rohingja unnu með okkur og það skipti sköpum. Við vorum tvö á vakt allan sólarhringinn því skelfilegir atburðir gerðust þarna á öllum tímum dags og það hræðilegasta og erfiðasta sem ég hef upplifað á mínum starfsferli gerðist þarna í þessum flóttamannabúðum.

Það kviknaði í einu tjaldi og kona ásamt fjórum börnum sínum létust af brunasárum um nóttina. Maðurinn hennar var, ásamt elsta barninu sem var sonur, annars staðar og þeir lifðu af. Þetta var mjög óhugnanlegur dauðdagi og starfsfólkið þurfi mjög mikla sálræna aðstoð eftir þetta atvik sem hafði mikil áhrif á okkur. Maðurinn og sonurinn komu í tjaldið til mín í heila viku á eftir þar sem þeir bara grétu á meðan ég hélt í höndina á þeim. Ættingjar hans komu svo úr öðrum flóttamannabúðum og sóttu þá feðga sem var gott. En ég hugsa stundum til þeirra, hvað hafi orðið um þá og stundum vakna ég upp á nóttunni og þá kemur þessi nótt oft upp í hugann. Þetta hafði mikil áhrif á mig.“

Guðbjörg segist vinna úr sínum áföllum með hreyfingu, öndun og jákvæðum hugsunum. „Reynslan í gegnum árin hefur líka gagnast mér. Ég hef verið mjög lánsöm í lífinu með fjölskyldu og vini og líka að fá að vinna fyrir Rauða krossinn. Ég var líka svo lánsöm að fá handleiðslu þegar ég þurfti á að halda og að hafa fengið að fara á ráðstefnur þar sem til að mynda stærstu nöfnin á geðsviðinu hafa verið að miðla þekkingu sinni. Þetta hefur eflt mig sem fagmanneskju, ég tel að símenntun og endurmenntun ásamt handleiðslu sé mikilvægur hluti af því að þróast og eflast í starfi og sem manneskja. Maður er líka lánsamur ef maður þekkir sín gildi og lifir samkvæmt þeim og svo er líka dýrmætt að vera meðvitaður um að maður ber ekki ábyrgð á öllum öðrum sem getur verið flókið í þessum geira. Forræðishyggja, meðvirkni og ráðríki er oft áberandi en mér finnst að oft þurfi fagfólkið að hlusta meira frekar en að vera alltaf að gefa ráð. Ef maður er alltaf að hugsa um þarfir annarra getur maður týnt sjálfum sér og sínum þörfum til að halda andlegri heilsu. Þolinmæði, víðsýni, þekking og fordómaleysi eru dýrmætir eiginleikar í geðheilbrigðisþjónustu. Mannúð og virðing eru grundvallargildi Rauða krossins og að hafa þessi viðmið að leiðarljósi í vinnunni hefur svo mikið að segja. Mín grunngildi eru líka jafnrétti og jöfnuður og í geðhjúkrun er bara mjög mikilvægt að vera meðvitaður um sína veikleika og styrkleika og að kunna að hlusta,“ segir hún einlæg.

Guðbjörg í flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess.

Mikilvægt að skoða áfallasöguna

Guðbjörg segir að á undanförnum árum hafi verið mikil þróun í áfallafræðum: „Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu mikilvægt það er að fræða fólk um hvernig það sjálft getur haft jákvæð áhrif á sína líðan með öndunaræfingum, hreyfingu, slökun og fleiri leiðum. Að sjálfsögðu eiga lyf líka rétt á sér tímabundið, til að mynda þegar fólk þarf að geta sofið, róað sig og tekist á við lífið. Það þarf samt líka að kenna fólki að nota aðrar aðferðir en lyf til að líða betur,“ segir Guðbjörg og leggur áherslu á orð sín. Hún segir að rannsóknir undanfarin ár sýni að þær aðferðir sem hún nefndi hafi oftast jákvæð áhrif á andlega líðan, þess vegna sé svo mikilvægt að fólk kunni leiðir til að bæta andlega líðan. „Svo þarf að skoða áfallasöguna; hvað kom fyrir, úr hverju þarf að vinna. Það þurfa ekki endilega að vera stór áföll, mikil streita eða að tilfinningalegum þörfum sé ekki mætt, eða að það sé mikið öskrað og gargað á heimilinu til dæmis. Þessi atriði virðast kannski vera smávægileg en geta haft mikil áhrif á taugakerfi fólks og miðtaugakerfið okkar. Ég hef, held ég, ekki hitt neinn sem hefur greinst með geðsjúkdóm eða verið með fíknivanda og er brakandi hamingjusamur,“ segir hún og fær sér sopa af kaffinu.

Þörfin fyrir öryggi og nánd mikilvæg

Verður þú vör við vitundarvakningu um áföll og afleiðingar þeirra á heilsu?

„Já, ég hef mikið verið að lesa mér til um þessi áhrif og eins hvaða áhrif það hefur á manneskjuna þegar þörfum hennar er ekki mætt,“ svarar Guðbjörg hugsi og aðspurð hverjar séu þá grunnþarfir manneskjunnar fyrir utan að nærast og hvílast segir hún öllum mikilvægt að tilheyra og skipta máli. „Það er þessi þörf fyrir öryggi og nánd sem er svo mikilvæg.“ Guðbjörg nefnir líka að það sé rótgróið í þjóðarsálina að það þyki jákvætt að fara áfram á hnefanum og að vera sterkur, sama hvað bjátar á í lífinu. „Hér áður fyrr þegar foreldrar misstu kannski mörg börn á unga aldri þótti það merki um styrkleika að fella ekki tár, bera ekki sorgina á torg. Konur þorðu á þeim tíma jafnvel ekki að tengjast nýfæddum börnum sínum af ótta við að missa þau og það hefur mikil áhrif á andlega líðan. Þetta eru varnarviðbrögð til að verjast vanlíðan því það að missa barn er stærsta áfall sem foreldar geta upplifað.“

Aðspurð hvernig hægt væri að bæta heilbrigðiskerfið segist Guðbjörg ekki vera með neina töfralausn en að það þurfi að stokka upp í því og gera breytingar. „Ég hef á tilfinningunni að heilbrigðiskerfið sé að vissu leyti svolítið staðnað, læknar eru oft að sinna stöfum hjúkrunarfræðinga eins og þeim sé ekki treystandi til þeirra verka sem þeir kunna. Það þyrfti að valdefla hjúkrunarfræðinga meira og skoða valdastrúktúrinn og þetta eldgamla fyrirkomulag. Ég var til dæmis að fara með skjólstæðing í aðgerð fyrir ekki svo löngu og ég upplifði að ekkert hefði breyst á fjörtíu árum. Fyrst þurfti skjólstæðingurinn að tala við hjúkrunarfræðing sem innritaði hann, svo kom skurðlæknirinn, þá svæfingalæknirinn og það voru alltaf sömu spurningarnar aftur og aftur. Það þarf auðvitað ákveðið skipulag á spítala en það er margt sem má bæta og gera betur.“ Guðbjörg segir að strax í hjúkrunarfræðináminu þurfi að byrja að valdefla verðandi hjúkrunarfræðinga.

„Og efla gagnrýna hugsun því þótt hlutirnir hafi verið gerðir á ákveðin hátt í mörg ár þýðir það ekki endilega að það sé besta leiðin til að gera þá,“ segir Guðbjörg sem hefur augljóslega mikla trú á að hjúkrunarfræðingar geti gert meira og eigi ekki að leyfa öðrum starfsstéttum að ganga í sín verk.

Þurfum að sinna þeim verst settu betur

Hvernig væri draumageðheilbrigðiskerfi?

„Að skjólstæðingar hefðu meira að segja um sína meðferð og gætu einnig valið úr fleiri meðferðarúrræðum hvort sem það væri með eða án lyfja. Ég myndi líka vilja sjá að við værum að grípa fyrr inn í, til dæmis með því að efla heilsugæsluna og styðja við fjölskyldur, einnig að fólki sé mætt af virðingu, á þeim stað sem það er, þegar það er lagt inn á geðdeildir. Ég myndi vilja meiri eftirfylgni með okkar veikustu skjólstæðingum og að þeim sé sinnt vel, hinir geta mætt á heilsugæsluna. Við þurfum að sinna þeim sem eru verst settir betur, þjónustan þarf að vera þar sem fólkið er, það vantar fleiri úrræði. Stærstu geðdeildir í Bandaríkjunum til dæmis eru fangelsin, þar eru flestir geðsjúkir í fangelsum eða heimilislausir og við virðumst vera að stefna í þessa átt og þá erum við búin að missa af lestinni. Þess vegna er svo mikilvægt að grípa fyrr inn í, það er of mikil flokkun í gangi, fólk er sent heim ef það passar ekki inn í ákveðin skilgreindan ramma, þessu þarf að breyta. Við þurfum að spyrja skjólstæðinga: Hver er vandinn, hvað kom fyrir þig? Og svo þarf að mæta fólki þar með úrræðum sem virka.

Silja Bára Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins, Guðbjörg Sveinsdóttir og Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins við afhendingu orðunnar.

Það er gamaldags hugsun að þurfa að flokka alla og setja inn í exel-skjöl. Maður spyr sig líka hvort það sé eðlilegt að börn hérlendis séu með svona mikinn hegðunarvanda, er það kannski eitthvað samfélagslegt?“ Henni er heitt í hamsi yfir stöðunni og veltir upp þeirri spurningu hvort kannski sé eitthvað annað að samfélaginu sem orsakar hegðunarvanda hjá börnum. „Hvað erum við að gera? Það þarf aga en það þarf líka kærleiksríkan aga. Ég held að það þurfi að stokka upp í heilbrigðiskerfinu og fara að einblína meira á mannúðina og þarfir fólks. Það vantar meiri auðmýkt,“ segir hún einlæg en ákveðin.

Þakklát að hafa endað feril sinn í heimahjúkrun

Við vindum okkur í allt aðra sálma og spyrjum Guðbjörgu hvernig henni hafi orðið við þegar hún frétti að hún yrði sæmd Florence Nighingale-orðunni? „Ég var stödd í verslun í Þýskalandi þegar ég fékk símtalið og hélt fyrst að það væri verið að gera at í mér. Á dauða mínum átti ég von á en ekki þessu,“ segir hún hógvær og hlær.

„Ég er enn þá agndofa yfir þessu en auðvitað er ég líka stolt og þakklát. Þetta er mikill heiður og viðurkenning fyrir mig en ég þekki líka marga aðra hjúkrunarfræðinga sem mér finnst eiga skilið að vera sæmdir Florence Nightingale-orðunni,“ segir hún og brosir.

Guðbjörg er að mestu hætt að vinna, hún sinnir aðeins fræðslu og handleiðslu hjá heilsugæslunni og segist nýta frítíma sinn til að fara í sund, jóga og að njóta samveru með fjölskyldu og vinum. Síðustu starfsárin var hún í heimahjúkrun, hvernig kom það til? „Ég hætti í geðinu af mörgum ástæðum og var boðið starf hjá Heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins við að efla geðhjúkrun í heimahjúkrun með fræðslu og öðru. Þar opnaðist mér nýr heimur, mér fannst mjög gaman að starfa þar og er þakklát að hafa fengið þetta tækifæri. Ég er sátt að vera nánast alveg hætt að vinna. Mér finnst yndislegt að geta stjórnað mínum tíma og notið lífsins með mínu fólki.“ Við látum það verða lokaorðin og kveðjum Guðbjörgu eftir gott spjall.