Fara á efnissvæði
Frétt

Gefandi sumar

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Ég hef fundið að það sem brennur hvað mest á hjúkrunarfræðingum er að fá fréttir af yfirstandandi kjaraviðræðum. Í skemmstu máli er staðan sú að viðræður við okkar helstu viðsemjendur hafa gengið ágætlega ennþá er þó nokkuð eftir. Því miður get ég ekki farið yfir stöðu einstakra samninga eða þróun viðræðnanna þar sem trúnaður ríkir um það sem sagt er á samningafundum á meðan á viðræðum stendur. Fundirnir hafa farið fram í húsnæði Ríkissáttasemjara sem nú er lokað vegna sumarfría en samninganefndirnar hafa haldið áfram að hittast og hafa þær viðræður verið af hinu góða. Vegna sumarleyfa verður nú gert hlé á viðræðum fram yfir verslunarmannahelgi.

Fyrir utan kjarasamninga verður margt að gerast á vettvangi félagsins í haust. Í september mun Fíh halda málþing á vettvangi Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN), þar munu formenn og fulltrúar allra félaga hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum koma saman og ræða bæði mönnun og ráðningar hjúkrunarfræðinga á milli landa. Það málefni kemur okkur öllum við. Okkur hefur verið ljóst í mörg ár að ekki er hægt að standa undir mönnunarþörfinni hérlendis eingöngu með hjúkrunarfræðingum sem útskrifast á Íslandi. Á sama tíma er ekki hægt að sækja hjúkrunarfræðinga markvisst til landa sem þurfa jafnvel enn frekar á þeim að halda. Hjúkrunarfræðingar eru takmörkuð auðlind alls staðar í heiminum. Það er vandi sem má rekja til vanfjárfestingar yfirvalda um allan heim í hjúkrun. Það verður því mjög fróðlegt að heyra í framkvæmdarstjóra Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN), reynslu hinna Norðurlandanna og fleiri góðum gestum.

Í október fer fram Hjúkrunarþing þar sem rætt verður um hjúkrun við lífslok. Málefni dánaraðstoðar hefur mikið verið í umræðunni, skiptar skoðanir úti í samfélaginu og líka meðal heilbrigðisstarfsfólks. Fulltrúar fag- og landsvæðadeilda hjúkrunarfræðinga, sem og fleiri, munu því fræðast um allar hliðar þessa flókna málaflokks og taka þátt í umræðum um framtíðarskref Fíh í honum. Opnað verður fyrir skráningu á þingið í ágúst og vil ég hvetja þá hjúkrunarfræðinga sem hafa sérstakan áhuga á þessu viðfangsefni til að skrá sig og taka þátt í umræðunni með okkur.

Það mætti segja að nú sé hápunktur íslensks sumars samkvæmt dagatalinu, þó að veðrið sé nú allavega og alls kyns. Við látum það ekkert stýra okkur um of frekar en fyrri daginn og tökum okkar lögbundna sumarfrí. Það er mikilvægt að geta stigið burtu frá vinnunni og átt góðan og gefandi tíma með sjálfum sér og sínum nánustu. Að því loknu vil ég hvetja ykkur til að prófa rafræn námskeið Akademías. Til að geta skráð sig inn á Akademías þar kóða sem má nálgast á Orlofsvefnum, undir gjafabréf og kort og Vörur. Þar er hægt að panta kóðann og kemur hann þá með tölvupósti, kóðinn er svo notaður til að fá frían aðgang að námskeiðunum. Þannig er hægt að fræðast um alls konar hluti hvar sem er og hvenær sem er sólarhringsins. Það eru boði ýmis áhugaverð námskeið sem nýtast hjúkrunarfræðingum við sín störf, til dæmis um að setja fólki mörk, teymisvinna, notkun tölvuforrita, framkoma, stjórnun og samskipti, núvitund og fleira.

Ef ykkur vantar skemmtilegt efni til að hlusta á í sumar þá hvet ég ykkur til að skoða viðmælendur Rapportsins, það er hlaðvarpsþáttur Fíh sem kemur út mánaðarlega. Þar eru mjög áhugaverð viðtöl við hina ýmsu hjúkrunarfræðinga sem segja m.a. frá sínu persónulega lífi og starfi og kemur svo vel fram í þessum viðtölum hversu fjölbreytt starf hjúkrunarfræðingsins er í raun og veru. Í júlíþættinum er talað við hann Raul frá Filippseyjum sem er með viðhorf til íslenska veðursins sem ég ætla að tileinka mér í sumar, veðrið er bara hugarfar og spurning um réttan klæðnað.

Njótið sumarsins!