Helga Rósa var kjörin formaður í allsherjarkosningu hjúkrunarfræðinga í mars síðastliðnum. Í ræðu sinni á vel sóttum aðalfundi þakkaði hún Guðbjörgu Pálsdóttur, fyrrverandi formanni Fíh, fyrir sín störf í þágu félagsins síðustu níu ár. Aðalfundurinn fór fram á Hilton Reykjavík Nordica og í beinu streymi í gegnum Teams.
Á aðalfundinum voru kosnir þrír nýir stjórnarmenn, Kristófer Kristófersson, Margrét Árdís Ósvaldsdóttir og Wendill Galan Viejo, ásamt Katrínu Ösp Jónsdóttur varamanni.
Á aðalfundinum voru samþykktar tvær ályktanir. Skorað er á stjórnvöld að gera kröfu um íslenskukunnáttu hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni ásamt tryggingu um inngildingu í íslenskt samfélag til að þeir fái starfsleyfi hér á landi. Tryggja þarf hjúkrunarfræðingum af erlendu þjóðerni fullnægjandi stuðning varðandi starfs- og menningarbundna þætti, sanngjörn laun og öruggt starfsumhverfi. Einnig var samþykkt ályktun þar sem heilbrigðisstofnanir eru hvattar til að ljúka við gerð stofnanasamninga fyrir lok júnímánaðar.
Upptöku af aðalfundinum má finna á Mínum síðum.