Fara á efnissvæði
Pamela Cipriano forseti ICN
Frétt

Koma þarf í veg fyrir árásir á heilbrigðisstarfsfólk

ICN hefur skrifað opið bréf til aðalritara SÞ um að beita sér gegn árásum á hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk.

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) hefur skrifað opið bréf til aðalritara Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þar sem óskað er eftir traustum og ótvíræðum aðgerðum til að koma í veg fyrir árásir á hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk.

ICN hefur margsinnis vakið athygli og fordæmt árásir á hjúkrunarfræðinga, hafa þær aukist á síðustu tveimur árum í átökum á Gaza, Úkraínu og Súdan. Fíh er meðlimur ICN og hefur líkt og önnur félög hjúkrunarfræðinga, margsinnis fordæmt árásir á heilbrigðisstarfsfólk og hvatt til friðar. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi og árásir á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eru með öllu óásættanlegar.

Í bréfinu, sem Pamela Cipriano forseti ICN skrifar til Antonio Guterres aðalritara SÞ, er vakin athygli á faglegu hlutverki hjúkrunarfræðinga við að veita heilbrigðisþjónustu. Vísar Cipriano í skýrslu Rauða krossins þar sem einnig fjallað um nauðsyn þess að verja heilbrigðisstarfsfólk og vinnustaði þeirra. Er Guterres hvattur til að gera allt sem í hans valdi stendur til að stöðva þessar árásir.

„Ég bið þig um að nota það vald sem þitt embætti býr yfir til að fordæma þessar grófu árásir sem við höfum séð víða um heim og beita þér fyrir því að hjúkrunarfræðingar, sem og annað heilbrigðisstarfsfólk, njóti þeirrar verndar sem þau hafa samkvæmt alþjóðalögum,“ segir í bréfi Cipriano.

Bréfið er hluti af átaki ICN undir myllumerkinu #NursesForPeace sem safnar fé til styrktar hjúkrunarfræðingum á átakasvæðum ásamt því að vekja athygli á hættum sem staða að heilbrigðiskerfum. Átakið styrkir nú hjúkrunarfræðinga í Palestínu, Úkraínu, Afganistan, Súdan, Ísrael og Myanmar. Fíh stendur heils hugar á bak við bréfið og átak ICN.

Palestína og Ísrael

ICN er í stöðugu sambandi við hjúkrunarfélög í bæði Palestínu og Ísrael. Í Palestínu hefur ICN veitt mannúðaraðstoð, í Ísrael hafa hjúkrunarfræðingar fengið sálræna aðstoð. ICN hefur kallað eftir því að friði verði komið á hið fyrsta og næg hjálpargögn komist til íbúa Gaza.

Úkraína

ICN er í miklum samskiptum við hjúkrunarfræðinga í Úkraínu og veitir þeim fjárhagslega aðstoð við sérstök mannúðar- og fræðsluverkefni.

Súdan

ICN styður Félag hjúkrunarfræðinga í Súdan vegna átakanna þar síðustu þrjú ár, þá sérstaklega neyðarteymi sem starfa í þremur borgum í landinu. Með því að starfrækja neyðarteymin er hægt að bregðast hratt við aðstæðum og hjálpa þeim sem þurfa.