Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og EFN hafa miklar áhyggjur af stöðunni á Gaza. Síðustu vikur hafa verið gerðar enn frekari árásir á heilbrigðisstofnanir á svæðinu, þá sérstaklega Al-Shifa sjúkrahúsið, þar sem heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar létu lífið.
Samkvæmt vitnisburði heilbrigðisstarfsfólks voru meira en hundrað sjúklingar, flestir af gjörgæsludeildum, og meira en sextíu heilbrigðisstarfsmenn lokaðir inni í löngu umsátri um sjúkrahúsið. Ástandið var hræðilegt þar sem engin loftræsting var til staðar, ekkert rennandi vatn, engin hreinlætisaðstaða eða lyf. Þegar hanskar voru á þrotum notuðu hjúkrunarfræðingar plastpoka til að skipta um á sárum. Dögum saman fékkst enginn matur eða drykkjarhæft vatn. Fulltrúar starfsfólksins reyndu ítrekað að koma áhyggjum sínum á framfæri við ísraelska herinn en mætti einungis illri meðferð.
Í tilkynningu sem EFN hefur sent frá sér, segir að ef ekki tekst að koma á friði sem fyrst muni svæðið breytast í grafreit heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga, ef það er ekki þegar um seinan. Frá því átökin hófust í október í fyrra hafa Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN), EFN og Fíh margsinnis kallað eftir friði á Gaza og ítrekað bent á að samkvæmt alþjóðalögum má ekki ráðast á heilbrigðisstarfsfólk eða heilbrigðisstofnanir.
Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi og árásir á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eru með öllu óásættanlegar.