Fara á efnissvæði
Frétt

Næg mönnun hjúkrunarfræðinga eykur öryggi sjúklinga

Peter Griffiths, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann í Southampton, hélt erindi á ráðstefnunni Hjúkrun 2023.

Næg mönnun hjúkrunarfræðinga eykur öryggi sjúklinga, tryggir gæði þjónustu á heilbrigðisstofnunum og er samfélagslega hagkvæm. Ef stjórnvöld taka upp þá stefnu að ráða annað starfsfólk í staðinn fyrir hjúkrunarfræðinga mun það ekki skila sama árangri.

Þetta kom fram í erindi Peter Griffiths, prófessors í hjúkrunarfræði við Háskólann í Southampton, á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica dagana 28. og 29. október. Griffiths er leiðandi rannsakandi hjá National Institute for Health Research í Englandi og hefur unnið við stefnumótun víða um heim. Rannsóknir hans snúa m.a. að mönnunarviðmiðum út frá hagfræðilegu sjónarhorni og hvernig nálgast eigi vandamál tengd mönnun.

Mönnun oft ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi

Mönnunarviðmið hafa verið til umræðu um nokkurt skeið þar sem rannsóknir hafa gefið til kynna að þegar hjúkrunarfræðingar geta gengið að því vísu að þeir munu starfa á fullmannaðri vakt leiti þeir síður í önnur störf. Samkvæmt niðurstöðum kjarakönnunar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haustið 2022 kom fram að helmingur hjúkrunarfræðinga hefur oft mætt til vinnu við aðstæður þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga.

Í dag eru engin viðurkennd mönnunarviðmið hér á landi en heilbrigðisráðherra hefur skipað verkefnahóp sem ætlað er að leggja fram mönnunarviðmið í hjúkrun, niðurstöðurnar verða kynntar næsta vor. Fram kom í máli Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við setningu ráðstefnunnar í morgun að kraftur sé kominn í þá vinnu. Griffiths fundaði með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins að loknu erindi sínu.

Skýrar niðurstöður rannsókna

„Áhættan á neikvæðum áhrifum á sjúklinga, þar á meðal andlát, er lægri á þeim sjúkrahúsum sem bjóða upp á hærra hlutfall hjúkrunarfræðinga á hvern sjúkling. Þetta sýna rannsóknir sem telja bókstaflega mörg hundruð. Rannsóknir sem ná til þúsunda sjúkrahúsa og milljóna sjúklinga,“ sagði Griffiths í erindi sínu. Ef sjúklingur dvelur á deild þar sem skortur er á hjúkrunarfræðingum því meiri líkur eru á að útskrift þeirra seinki og meiri líkur eru á að sjúklingarnir þurfi aftur að leggjast inn á sjúkrahús.

Það hafa verið skiptar skoðanir í heimi heilbrigðisvísinda um skýr tengsl á milli mönnunar á deildum og gæði þjónustu. Griffiths vísaði í nýjar rannsóknir sem byggja á þúsundum sjúkraskýrslna einstaklinga, var þá hægt að sjá skýr áhrif mönnunar á gæði þjónustu og öryggi sjúklinga. Illa mannaðar vaktir og vaktir með öðru starfsfólki í stað hjúkrunarfræðinga leiddu til aukinnar dánartíðni.

„Stærri teymi heilbrigðisstarfsfólks með háu hlutfalli hjúkrunarfræðinga minnka líkurnar á að sjúklingar láti lífið, gæði þjónustunnar aukast, starfsánægja hjúkrunarfræðinga eykst og minni líkur eru á starfsfólk fari í kulnun,“ sagði hann. „Fyrir hvern heilbrigðisstarfsmann á hverja 25 sjúklinga þá minnka líkurnar á dauða sjúklings um rúmlega 13 prósent. Fyrir hver 10 prósent í hækkun á hlutfalli hjúkrunarfræðinga í teyminu minnka líkurnar á dauða um rúm 11 prósent. Þetta eru tölur sem við erum að sjá af gjörgæslu-, skurð- og legudeildum víða um heim.“

Griffiths vísaði svo í reynslu sína af vinnu við stefnumörkun. „Það er fyrirséð einhverjir ráðgjafar muni segja að engin skýr tengsl séu þarna á milli en þegar rýnt er í niðurstöðurnar þá er þetta sambærilegt og þegar sýnt var fram á tengsl reykinga við aukna tíðni lungnakrabbameins,“ sagði hann.

Annað starfsfólk ekki lausn á skorti á hjúkrunarfræðingum

Ekki er hægt að auka öryggi sjúklinga með því manna vaktir með öðru starfsfólki í stað hjúkrunarfræðinga, vísar Griffiths þá til ófaglærðs starfsfólks eða starfsfólks með minni menntun. Líkur á dauða sjúklings minnkuðu þegar öðru starfsfólki var fjölgað á vaktinni til jafns við hjúkrunarfræðinga en líkurnar á andláti hækkuðu til muna þegar hlutfall annars starfsfólks varð hærra en hjúkrunarfræðinga á vakt.

„Víða um heim er verið að skoða að stækka teymi á heilbrigðisstofnunum með því að ráða inn annað starfsfólk. Það er ekkert sem bendir til þess að slíkt sé betri nýting á fjármagni, þvert á móti bendir það til verri nýtingar á fjármagni ef markmiðið er að auka öryggi sjúklinga,“ sagði Griffiths.