Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið – Rannveig Jóna Jónasdóttir

Gestur Rapportsins er Rannveig Jóna Jónasdóttir, sérfræðingur í hjúkrun gjörgæslusjúklinga og dósent við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ.

Rannveig Jóna hlaut í vor hvatningarstyrk Fíh fyrir forystu við uppbyggingu fræðasviðs og náms í sérgreininni og náð framúrskarandi árangri við að samþætta rannsóknir, kennslu og klíníska vinnu í gjörgæsluhjúkrun. Hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1993, lauk meistaraprófi 2010 og doktorsprófi í gjörgæsluhjúkrun frá Háskóla Íslands 2017.

Hún hefur starfað á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi í tæp 30 ár og orðið vitni af ýmsum breytingum. „Breytingar mættu vera hraðari. Það er vel þekkt með vísindin að þegar búið er að sýna fram á eitthvað þá tekur það tíu til fimmtán ár að innleiða breytingar til að það festist í starfi. Ég hef alveg fengið að reyna á því í tilraunum til að breyta einhverju eins og til dæmis að hafa sjúklinga vakandi í öndunarvél. Það er klínískt krefjandi og það eru ekki allir tilbúnir í það, margir samt,“ segir hún.

Rannveig Jóna segir að framtíðin sé björt fyrir gjörgæsluhjúkrun á Íslandi. „Við viljum að hjúkrunarfræðingar sérhæfi sig í þessu, þetta er mjög sérhæft starf líkt og mjög mörg önnur í hjúkrunarfræði. Þú þarft mjög góðan þekkingargrunn til að geta veitt góða gjörgæsluhjúkrun. Mínar væntingar eru þær að sem flestir hjúkrunarfræðingar sem vilja starfa við gjörgæsluhjúkrun fari í framhaldsnám, þá er auðveldara að innleiða breytingar, taka það nýjasta og besta sem birt er í rannsóknum inn á hið klíníska gólf.“