Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Anna Tómasdóttir

Gestur Rapportsins er Anna Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild smitsjúkdóma.

Anna hefur starfað á göngudeild smitsjúkdóma á Landspítalanum í Fossvogi í rúman áratug. Meðal verkefna deildarinnar er að sinna einstaklingum með HIV smit. Meistararitgerð Önnu fjallar um HIV stimplun.

„Það hafa átt sér stað svakalegar framfarir í læknavísindum við lyfjameðferð við HIV. Við erum með lyf í dag þar sem þú tekur eina töflu á dag oftast og hún heldur veirunni algjörlega niðri þannig að þú getur ekki smitað aðra og hún getur ekki gert þig veikan. Þannig að þeir sem smitast af HIV eiga samskonar lífslíkur og aðrir,“ segir Anna.

„Á sama tíma hefur nánast ekkert áunnist hvað varðar sálfélagslegu áskoranir sem fylgja HIV greiningu. Einstaklingar sem eru að greinast með HIV í dag eru oft að upplifa sömu tilfinningar og óvissu og einstaklingar sem greindust fyrir 20-30 árum síðan. Fólk er fljótt að átta sig á að það er ekki dauðvona en í mörgum tilfellum, það er mín reynsla, að fólk á erfitt með að sætta sig við að greinast. Það fylgir þessu svakalegur ótti við opinberun, um framtíðina, hvort að það geti eignast maka, eignast börn, geti unnið. Það eru þessi samfélagslegu viðhorf sem fólk er búið að innhverfa og tileinka sér, og upplifir þá þessa skömm og þessar neikvæðu tilfinningar sem fylgja því að greinast.“

Langflestir læra að lifa með veirunni og átta sig á að hún stjórnar ekki lífi þeirra. „Það er nálægð okkar hjúkrunarfræðingana við skjólstæðinganna sem gefa okkur þessi tækifæri til að veita stuðning, fræðslu og ráðgjöf varðandi HIV stimplun, þessa innri stimplun og það sem snýr að einstaklingunum sjálfum og hvernig þeir geta unnið úr því.“

Kemur inn og út á fimm mínútum

Göngudeild smitsjúkdóma heldur úti lágþröskuldaþjónustu þar sem einstaklingar með vímuefnavanda geta auðveldlega nálgast heilbrigðisþjónustu, markmiðið er að draga úr komum á bráðamóttöku. Auðvelt er fyrir aðra þjónustuaðila á borð við Frú Ragnheiði og félagsþjónustuna að vísa fólki til göngudeildarinnar með litlum fyrirvara.

„Við getum mætt þörfum þessa hóps með því að fyrirbyggja sýkingar og meðhöndla sýkingar. Þannig að ef fólk er með einhvers konar sýkingar tengdar vímuefnanotkun getur það komið á eigin vegum eða í gegnum aðra þjónustuaðila og fengið mat á mjög skömmum tíma. Við bara stökkvum til og erum með mjög auðvelt aðgengi að smitsjúkdómalæknum með okkur, erum með sýklalyf á staðnum og getum þá nestað fólk. Þetta eru kannski bara 5 mínútur sem fólk kemur inn og fer út, það getur fengið búnað og annað sem það þarf. Við getum skimað fyrir HIV og lifrarbólgu ef það vill,“ segir Anna. „Þetta hefur reynst mjög vel og mætti útfæra útgáfu af þessu á fleiri staði í heilbrigðiskerfinu.“

Innihald siðareglna hjúkrunarfræðinga og það sem hjúkrunarfræðingar læra í náminu á við um starfið. „Að mæta fólki þar sem það er statt. Sinna grundvallar hreinlæti. Það er oft þannig að einstaklingarnir búa við þannig aðstæður að þeir geta ekki sinnt og þess vegna sem þeir eru að fá þessar sýkingar. Lausn er ekki endilega lyf eða sýklalyf, við þurfum stundum að fara hinum megin við vandamálið.“