Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Þorsteinn Jónsson

Gestur Rapportsins er Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun, kennslustjóri hermináms á menntadeild Landspítala og aðjúnkt við Háskóla Íslands í bráða- og gjörgæsluhjúkrun.

Þorsteinn er leiðtogi í uppbyggingu hermináms á Íslandi. Hann, ásamt samstarfsfólki, hefur byggt upp herminám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og við Landspítala.

„Þetta hefur farið hægt af stað. Við fengum okkar fyrsta sýndarsjúklinginn árið 2007. Þá var okkur troðið niður í átta fermetra herbergi í kjallaraholu, myrkrakompa hálfgerð. Nú erum við niðri í Eirbergi farin að sjá Landspítalann og Háskólann vinna saman að byggingu 500 fermetra setur sem verður vonandi fullklárað í febrúar eða mars,” segir Þorsteinn. „Augu stjórnvalda og þeirra sem hafa peningavöldin eru að opnast því fólk er að sjá hver ávinningurinn af herminámi er.“

Ávinningurinn af herminámi er mikill og margþættur, rannsóknir snúast nú um hvernig herminám virkar ekki hvort það virkar. „Til dæmis að þjálfa teymisvinnu sem er oft brotalöm í heilbrigðiskerfinu. Þegar eitthvað fer úrskeiðis og rótargreiningar eru skoðaðar þá er það ekki hvernig fólk er að gera hlutina heldur hvernig það vinnur saman. Ég þekki enga aðra kennsluaðferð sem er öflugri í að þjálfa ólíka hópa saman,“ segir hann. „Svo er margskonar annar ávinningur. Það er aukin starfsmannaánægja, fólki líður betur þegar það er búið að æfa sig og jafnvel betur undir það búin þegar eitthvað gerist.“