Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Ásdís M. Finnbogadóttir og Gunnhildur H. Blöndal

Gestir Rapportsins eru Ásdís M. Finnbogadóttir og Gunnhildur Hafþórsdóttir Blöndal, hjúkrunarfræðingar á sjúkrahúsinu Vogi.

Á Vogi fer fram afeitrun og greining fíknisjúkdóma, þar má meðal annars LOF, lyfjameðferð við ópíóðafíkn. „Eins og nánast allir vita þá er búinn að vera ópíóðafaraldur í samfélaginu,“ segir Gunnhildur. „Þessi meðferð er bæði notuð inni á Vogi sem afeitrun og sem áframhaldandi lyfjameðferð eftir meðferð.“ Eru þá notuð lyf, sem eru ekki vímugjafi, sem koma í staðinn fyrir ópíóða. „Þegar fólk er að nota ópíóða þá verður það bæði líkamlega og andlega háð því. Þegar það kemur í meðferð til okkar þá er hreinlega ekki raunhæft fyrir einstaklinginn að afeitrast.“

Ásdís segir að þjónusta sem þessi hafi verið í boði hjá SÁÁ frá því fyrir aldamót. „Þegar ég kem þarna inn 2006 þá eru þetta um 30 manns. Svo hefur orðið tugprósenta aukning í fjöldanum sem sækir þessa meðferð,“ segir hún. „Skaðaminnkun er vítt hugtak. Við erum að veita skaðaminnkun með því að gefa þessi lyf. Á meðan það sækir þjónustuna til okkar þá eru töluvert minni líkur á skaða eða dauða, því það getur ekki ofskammtað. Það eru um 40 manns eru í neyslu meðfram LOF-meðferð okkar, þá er það að nota kannabis, jafnvel örvandi efni, skaðaminnkunin okkar beinist að því að koma í veg fyrir ofskömmtun af völdum ópíóða. Við neitum engum um þessa meðferð.“

Þær hafa séð breytingu í neyslu ungmenna á síðustu árum. „Það er algengara nú en áður að þau fari beint í hörðu efni. Ekki að byrja að nota áfengi eða eitthvað slíkt. Sem er sorgleg þróun,“ segir Ásdís. „Áfengi er mjög óvinsælt hjá ungmennum, það er ekki spennandi. Kannabis er orðið grunnurinn, ofan á það koma örvandi efni og svo ópíóðarnir. Það er varla við heyrum að ungmenni drekki.“

Þekkja þær vel skaðsemi kannabisefna, sérstaklega á ungmenni. „Þetta er alls ekki skaðlaust. Við sjáum það vel,“ segir Gunnhildur. Ásdís tekur undir það. „Þetta veldur gríðarlegum skaða á heilanum. Þetta er fituleysanlegt efni. Við sjáum þegar sérstaklega þegar þau byrja mjög ung að þetta sest á taugaendana og gerir mikinn óafturkræfanlegan skaða.“