Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Vilborg Ingólfsdóttir

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur. Vilborg var í fyrsta hópnum sem hóf nám í hjúkrunarfræði á háskólastigi hér á landi árið 1973, áður hafði hún klárað nám í Hjúkrunarskóla Íslands og var því samtals sjö ár í grunnnámi.

Vilborg var snemma heilluð af því að starfa við hjúkrun og þegar hún hafði lokið námi við Hjúkrunarskóla Íslands langaði hana að læra meira. „Svo sá ég auglýsingu í blaði og skrái mig í námið, ég tók þar heil fjögur ár í grunnnámi í hjúkrun,“ segir Vilborg, segist hún í raun hafa dottið í lukkupottinn. „Þá vissi ég nákvæmlega fyrir hvað þetta nám stóð. Einn kennarinn sagði við mig að eitt námskeiðið væri ekki auðvelt fyrir mig, ég þyrfti að læra hluti upp á nýtt.“

Heldur erindi á Hjúkrun 2023

Vilborg, mun ásamt Ragnheiði Haraldsdóttur, halda erindi á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 um tilurð námsbrautarinnar. „Þegar ég skoða þetta, þá hefði þetta ekki orðið ef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefði ekki tekið þetta upp á sína arma. Ástæðan af hverju farið var af stað með námið var skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa,“ segir hún. „Hagsýslustjóri gerði könnun 1967, þá kom í ljós að aðeins 33% hjúkrunarfræðinga voru starfandi, eftir tvö ár í starfi voru 66% hættir í starfi. Það var margt svona á þessum tímum, það voru ekki barnaheimili, konan átti bara að vera heima.“

Að loknu námi starfaði Vilborg víða sem hjúkrunarfræðingur, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. „Þar fer ég í lýðheilsunám, þá voru nánast engir lýðheilsufræðingar á Íslandi,“ segir hún. „Það er ekki sérnám í hjúkrun en það er alveg rosalega gefandi nám fyrir samfélagslega nálgun á heilbrigðisþjónustu.“

Vilborg og Ragnheiður í viðtali við Vísi árið 1977. Þær munu halda erindi um námsbrautina á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því námið hófst.

Um miðjan níunda áratuginn hóf hún störf hjá Embætti landlæknis þar sem hún starfaði í tuttugu ár. „Þegar ég var nýkomin brast á alnæmisfaraldur í heiminum, sem var ekta lýðheilsumál,“ segir Vilborg. Hafði hún mikla aðkomu að því að gera auglýsingar til að fræða almenning. „Heilbrigðisþjónustan vissi ekki hvernig átti að taka á þessu, svo allt samfélagið sem mætti þessum einstaklingum með alveg ótrúlegum misskilningi og hræðslu.“

Vilborg gegndi stöðu yfirhjúkrunarfræðings hjá embættinu. „Mín bjargfasta skoðun er sú að þetta eigi heima hjá Embætti landlæknis, sjálf hef ég unnið lengi í ráðuneytum og veit muninn. Landlæknir er alltaf ráðgjafi sem er óháður pólitík, hann getur alltaf tjáð sig. Hitt er annars eðils. Í mörgum löndum er ekki til neitt sem heitir Embætti landlæknis, það eru ekki til slíkar stofnanir. Embætti landlæknis er frá 1760 og hefur ríka hefð hér sem óháður ráðgefandi aðili,“ segir hún. „Mér finnst að það eigi að vera slík staða hjá Embætti landlæknis.“

Gat talað við báða hópa hjúkrunarfræðinga

Frá 1991 til 1994 var Vilborg formaður Hjúkrunarfélags Íslands, var það hennar helsta markmið að sameina félagið við Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga. „Þetta var mitt eina markmið, að sameina félögin og svo myndi ég stíga út. Það kom ekki til greina að ég gæfi kost á mér sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,“ segir hún. Með því að hafa klárað grunnnám í bæði Hjúkrunarskóla Íslands og við Háskóla Íslands gat hún talað við báða hópa hjúkrunarfræðinga. „Það var traust á því að ég skildi afstöðu beggja hópa og ég gat talað fyrir því.“

Eftir það starfaði Vilborg hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í bæði Genf og Kaupmannahöfn. Upp úr aldamótum gegndi hún stöðu skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og síðar velferðarráðuneytinu. Fyrir tveimur árum hlaut hún fálkaorðu fyr­ir fram­lag sitt til hjúkr­un­ar og heil­brigðisþjón­ustu á Íslandi og á alþjóðavett­vangi. „Ég varð ofboðslega hrærð yfir þessari viðurkenningu, sem ég hefði aldrei fengið nema því ég vann með fólki sem trúði á mig, treysti mér og gaf mér tækifæri. Annars hefði ég ekki náð að gera þá hluti sem ég var að gera.“