Fara á efnissvæði
Frétt

Samið um styttri vinnutíma í Svíþjóð

Samninganefnd Vårdförbundet, heildarsamtaka heilbrigðisstétta í Svíþjóð, hefur tekið tilboði opinberra launagreiðenda þar í landi. Verkfallsaðgerðum hjúkrunarfræðinga er því lokið.

„Við höfum náð eins langt og við getum í þetta skiptið,“ segir í tilkynningu á vef Vårdförbundet. „Við settum styttri vinnutíma á dagskrá og höfum nú rutt brautina fyrir frekari umbætur í framtíðinni.“

Í aðdraganda verkfallsaðgerðanna í Svíþjóð var gripið til yfirvinnu- og ráðningabanns. Þann 4. júní síðastliðinn hófust svo verkfallsaðgerðir sem náðu til stórra vinnustaða á borð við Sahlgrenska, Karolinska, Södersjukhuset, Danderyds, Norrland, Scania og Linköping. Í síðustu viku skipuðu dómstólar í Östergötlandshéraði rúmlega 250 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum að snúa aftur til vinnu þar sem verkfall þeirra gæti stofnað lífi fólks og heilsu í hættu.

Margir lýstu yfir stuðningi við aðgerðir Vårdförbundet, þar á meðal Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Samvinna hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN) og Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN).

Kröfur hjúkrunarfræðinga í Svíþjóð sneru að bættum vinnutíma, sjálfbærum kjörum í fullu starfi og nýju starfsmati. Í tilkynningu á vef Vårdförbundet segir að aðgerðirnar hafi skilað árangri, atvinnurekendur hafi bakkað og hjúkrunarfræðingar í fullu starfi fái vinnutíma sinn styttan. Með því sé hafin langtímavegferð um að stytta vinnutíma allra hjúkrunarfræðinga. Þá var einnig samið um 3,3% launahækkun.

Sineva Ribeiro, hjúkrunarfræðingur og formaður Vårdförbundet, segir þetta lokatilboð frá atvinnurekendum. „Síðasta hálfa árið höfum við reynt að semja. Við höfum náð fram okkar helstu kröfum, um betri launaþróun og styttri vinnutíma. Við höfum verið í pattstöðu lengi þar sem atvinnurekendur hafa ekki viljað ræða um styttingu vinnutíma,“ segir hún. Aðgerðirnar hafi vakið athygli á aðstæðum hjúkrunarfræðinga. „Við munum halda áfram að berjast. Þrátt fyrir að yfirvinnubanninu sé lokið þá hvet ég alla hjúkrunarfræðinga til að fara varlega. Þú átt rétt á þínum frítíma og heilsu.“